Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVID-farþegum einkaþotu vísað frá landi

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Farþegum einkaþotu sem hingað kom í gær var vísað úr landi. Talið er að þeir hafi ætlað sér að skoða eldgosið. Yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir að þeir ferðamenn sem komu til landsins um helgina og fóru að gosstöðvunum hafi verið með bólusetningarvottorð. 

Allir sem fóru að gosi voru með bólusetningarvottorð

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir áhyggjuefni að erlendir ferðamenn komi hingað til lands í stuttar ferðir til að sjá eldgosið í Geldingadölum og fari ekki í sóttkví. 

„Eins og allir sem komu um helgina með svona stuttar bókanir, þeir voru þá með bólusetningarvottorð eða yfirstaðna sýkingu, þar af leiðandi, það fólk var í góðu lagi og var hleypt inn,“ segir Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Ekki er vitað til þess að nokkrum í sóttkví hafi tekist að komast í Geldingadali. Sigurgeir segir stuttar bókanir áberandi eftir að gosið hófst, það er að ferðamenn komi hingað til að sjá gosið. Lögreglan hafi hins vegar á því sérstakar gætur.

Ætluðu líklega í stutt gosstopp með einkaþotu

Í stað innan við 200 farþega á dag komu síðustu þrjá daga 6-700 farþegar á dag. Það eru ekki bara flugvélar í áætlunarflugi sem lenda í Keflavík: 

„Ég gær kom einkaþota og við vísuðum því fólki frá landinu. Það fór í morgun eftir að tólf tíma, lögbundin hvíld áhafnar var búin.“

Vélin kom frá Sviss með tvo farþega og tvo flugmenn og ætlaði fólkið að vera í tvo daga. 

Ríkissjóður greiðir gistingu og mat fyrir komufarþega

Frá fimmtudegi verða allir komufarþegar frá dökkrauðum löndum samkvæmt skilgreiningu Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar og eru ekki með vottorð um bólusetningu eða COVID-sýkingu að fara í sérstök sóttvarnahús stjórnvalda og dvelja þar í fimm daga sóttkví (sjá tilkynningu). Þetta kallar á aukamannskap á Keflavíkurflugvelli.

„Þeir sem falla undir þessu nýju reglu fara héðan í rútu og á hótel. Og verður það þá lokað inni á herbergi í fimm daga? Já, væntanlega já, þannig er þetta sett upp.“

Ekki er vitað hvort sóttkvíarfólkið kemst út til dæmis á svalir því ekki hefur verið greint frá því hvaða gistiheimilið ríkið leigir eða hvað rútufyrirtæki sér um flutningana. Sigurgeir segir að eins og þetta sé lagt upp greiði ríkissjóður greiðir bæði gistingu og mat fyrir fólkið. 

Farþegum sem vísað er fá landi verður hins vegar flutt á hótel við flugvöllinn þar sem það gistir undir eftirliti þar til það kemst til baka.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þeim sem vísað er frá landi dvelja undir eftirliti á Hótel Aura þar til þeir komast til baka.