Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uppruni nokkurra smita enn óþekktur

28.03.2021 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Smitrakningarteymi almannavarna vinnur enn að því að rekja smitið sem greindist utan sóttkvíar í gær. Nú eru tæplega þrettán hundruð í sóttkví hér á landi og Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður rakningarteymisins, segist ekki búast við að þeim fjölgi mikið eftir smitrakningu í dag.

„Ég held að vegna þessa tilfellis sem var utan sóttkvíar í gær, að það bætist ekki neitt rosalega margir við,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Uppruni ekki endilega fundinn við smitrakningu

Jóhann Björn segir að smitrakningu sé nú lokið á öllum öðrum smitum. En hvað þýðir það?  

„Starfið hjá okkur felst aðallega í því að finna þá sem mögulega voru útsettir og koma þeim í sóttkví, greina hvort þörf sé á sóttkví og ákvarða um það.“

Það er því ekki þar með sagt að uppruni smitanna sé fundinn. Enn er ekki vitað hvar nokkrir þeirra sem hafa greinst með COVID-19 utan sóttkvíar á síðustu dögum smituðust. Jóhann Björn segir að það sé ekki forgangsatriði rakningarteymisins að leita upprunans.

„Þeir sem eru utan sóttkvíar, eðli málsins samkvæmt vita þeir ekki hvar þeir smituðust, annars væru þeir í sóttkví. Svo gerist það stundum að við getum fundið tenginguna seinna meir, eitthvað sem leiðir í ljós að það takist að finna hver uppruninn er,“ segir Jóhann Björn. Og raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar hjálpa til við það.

Enn smit úti í samfélaginu

En Jóhann segir ljóst að það séu enn smit úti í samfélaginu. „Þess vegna erum við að brýna fyrir fólki að leita sér sýnatöku. Við getum ekki brugðist við því sem við vitum ekki af og kemur ekki inn. Það skiptir líka svo miklu máli varðandi þá sem eru smitaðir úti í samfélaginu hversu marga þeir ná að smita, hversu miklar takmarkanir eru í samfélaginu. Það er líka gríðarlega mikilvægt.“