Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Loka Suðurstrandarvegi: Örtröð við gosstöðvarnar

28.03.2021 - 14:33
Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Suðurstrandarvegi hefur verið lokað tímabundið vegna mikils fjölda bíla á svæðinu. Bílastæðin eru öll full og lögreglan á suðurnesjum stýrir umferð þannig að bílum verður hleypt inn í stæði eftir því sem þau losna.

Loka fyrir umferð klukkan 21 í kvöld

Af öryggisástæðum hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum svo ákveðið að loka fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gosstöðvum kl. 21 í kvöld. Þá verða Geldingadalir rýmdir á miðnætti.  

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hvíla þurfi björgunarlið sem nú hafi staðið vaktina í rúma viku: „Ekki er sjálfgefið að hægt verði að tryggja öryggi fólks seint um kvöld og að næturlagi við gosstöðvarnar í því margmenni sem þar hefur verið síðustu daga.“

Vísað er til þess í tilkynningunni að sóttvarnalæknir hafi hvatt fólk til þess að vera heima og fara ekki að gosstöðvunum. 

„Þar sem eldgosið virðist ekki vera á undanhaldi ætti að gefast nægur tími til að berja það augum en ágætlega lítur út með veður á næstu dögum,“ segir einnig í tilkynningunni. „Hingað til hefur gengið vel og engin slasað sig illa. Við viljum vera á þeim stað áfram en til að tryggja það er nauðsyn á að hefta eilítið aðgang fólks eins og hér hefur verið lýst.“

Ákvörðun um opnun Suðurstrandarvegar verður síðan tekin í fyrramálið kl. 7.