Hraunið búið að fylla dalsbotninn

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hraunið sem komið hefur upp um gígana í Geldingadölum síðustu níu daga er nú búið að þekja botn dalsins. Þar eru þrjár til sjö milljónir rúmmetra af hrauni komin upp úr jörðinni, sem hljómar kannski öllu minna á öðrum mælikvarða þar sem það er 0,003 til 0,007 rúmkílómetrar. Hraunstreymið eykst frekar en að það dragi úr því. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt Eldfjalla- og náttúrúvárhóps Háskóla Íslands sem var birt í morgun.

„Þá er gosið í Geldingadölum á sínum 9. degi og ekkert lát á gosinu, bætir í ef eitthvað er. Kvikugusurnar upp úr gígunum frískari, eða bara sýnilegri, eftir því sem leið á gærdaginn,“ segir í færslu sem birtist á Facebook-síðu hópsins í dag. „Gígarnir eru nú orðnir tveir, og má nefna þá Norðra og Suðra til auðkenningar.“

Hraunstreymið virtist stöðugt í nótt. Úr Norðra flæðir það til norðurs og þaðan í stórum og breiðum sveig til vesturs og síðan til suðurs yfir í syðsta hluta Geldingadala, meðfram gönguleiðinni. Þó fer hraunkvika úr þessum taumi líka inn í norðurhluta dalsins og lyftir yfirborði hraunsins þar jafnt og þétt. 

„Í byrjun nætur var sýnilegt flæði út úr Suðra lítið áberandi, en rétt fyrir miðnætti þá byrjaði hraunkvika að finna sér leið út úr gígnum um skarð til suð-suðvesturs. Á sama tíma tók „kvikuslettu-virknin“ í Suðra góðann kipp og á næsta hálftímanum teygði þessu flaumur sig frá gígnum til suðurs í tveimur straumum. Litlu seinna stöðvaðist austari straumurinn, en sá vestari hélt áfram að stækka og varð að myndarlegum hrauntaum, sem næstum náði saman við tauminn frá Norðra.“ 

Nýr hraunstraumur myndaðist úr Suðra um klukkan hálf fimm og innan við fimm mínútum síðar hafði hann runnið í hraunána frá Norðra sem tók smá kipp á sama tíma. „Þessi norðvestur straumur gróf sig niður á næstu klukkustundum og fellur nú frá Suðra í vel afmörkuðum farvegi,“ segir í færslu hópsins.