Endurbætur á sjóvarnargörðum í Fjallabyggð

28.03.2021 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Á næstunni hefjast endurbætur á sjóvarnargörðum í höfnum í Fjallabyggð. Hækka þarf varnargarða, til að varna því að sjór flæði á land, og gera við skemmdir af völdum sjógangs.

Sjóvarnargarðar í höfninni á Siglufirði skemmdust nokkuð í desemberverðinu mikla árið tvö þúsund og nítján en því fylgdi mikið brim. En einnig gekk sjór yfir grjótvörnina og flæddi víða um hafnarsvæðið og inn í hús á bryggjunum.

Þarf að hækka grjótvörnina til að verja mannvirki á landi

,,Það þarf í rauninni að hækka grjótvörnina. Þetta eru kannski ekki mjög miklar skemmdir á vörninni, en fyrir innan þar sem sjór flæddi inn, þar sést að sjór flæddi," segir Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð. Og það sé mikilvægt að verja bæði mannvirki á landi og bryggjur innan hafnarinnar. Sums staðar hafi jarðefni skolast burt í sjógangi og það þurfi að endurnýja. ,,Og hér er meiningin að reisa frystigeymslu. Þannig að það þarf að verja hana sem og höfnina og það er verið að verja þetta alltsaman."

Framkvæmdir hefjast fljótlega

Lægsta boð í verkið var þrjár komma sex milljónir króna. Vegagerðin sér um framkvæmdir með aðkomu Fjallabyggðar. Elías segir að framkvæmdir hefjist fljótlega. ,,Það er búið að semja við verktaka um það, búið að bjóða út og semja. Þannig að það verður bara fljótlega um leið og vorar aðeins. Það þarf að vinna grjót í þetta og annað."

Framkvæmt í Ólafsfirði að verki loknu á Siglufirði

En það eru tvær hafnir í Fjallabyggð og að loknum framkvæmdum á Siglufirði er áætlað að ráðast endurbætur á sjövörnum í höfninni í Ólafsfirði. ,,Og það verk er í undirbúningi og verður vonandi boðið úr fljótleega, en Vegagerðin sér um það. Í reikna með að það verði unnið grjót allavega í það verkefni samhliða þessu," segir Elías.