Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Einn skipverjanna á Reyðarfirði fluttur á Landspítala

28.03.2021 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Einn þeirra tíu skipverja sem greindust með COVID-19 um borð í súrálsskipi við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði um síðustu helgi var síðdegis í dag fluttur með sjúkraflugi á Landspítala vegna versnandi einkenna. Ástand annarra smitaðra um borð er stöðugt. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi og þar segir að flutningurinn hafi gengið snurðulaust fyrir sig.

Greint var frá því fyrr í vikunni að skipverjarnir hefðu brasilískt afbrigði veirunnar, en enginn þeirra hefur farið frá borði og því er ekki talin hætta á dreifingu smits. Skipstjóri greindi frá því við komu skipsins að sjö skipverjar væru veikir og að fenginni einkennalýsingu og öðrum faraldursfræðilegum þáttum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni og tíu af nítján greindust með kórónuveiruna.

Þeir skipverjar um borð sem ekki hafa greinst með COVID-19 verða skimaðir á morgun í þriðja sinn frá því skipið kom til landsins. Niðurstaða ætti að liggja fyrir seinnipartinn á morgun eða á þriðjudag.