Vonskuveður á stórum hluta landsins

27.03.2021 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Útlit er fyrir hvassviðri, storm og jafnvel rok á stórum hluta landsins þegar líður á daginn og framundir morgun. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna vinda og hríðarveðurs allt frá Suðausturlandi til sunnanverðra Vestfjarða og að auki gular viðvaranir vegna Austfjarða, Miðhálendisins, Norðurlands vestra og Vestfjarða. Veðrið byrjar að láta til sín taka síðdegis, verður útbreitt í kvöld en gengur svo niður í hverjum landshlutanum á fætur öðrum þar til í fyrramálið.

Vetrarfærð er þegar um land allt þrátt fyrir að enn séu nokkrir klukkutímar í að veður versni.

Veðurstofan spáir norðvestanátt, átta til fimmtán metrum á sekúndu, og él um landið norðaustanvert í fyrstu, en annars breytilegri átt, fimm til tíu, og verður skýjað með köflum. Talsvert frost. Þegar líður á daginn verður vaxandi austan- og norðaustanátt, víða átján til 25 metrar á sekúndu, og snjókoma með köflum í kvöld, en hægari vindur um landið norðaustanvert. Dregur úr frosti.

Veður lægir um landið sunnanvert í nótt. Norðan og norðaustan fimmtán til 23 metrar á sekúndu norðanlands á morgun og snjókoma. Mun hægari vindur sunnantil á landinu og dálítil él, en styttir upp og léttir nokkuð til síðdegis. Frost að sex stigum en hiti um frostmark við suðurströndina.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV