Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Takmarkað traust til lögreglunámsins í HA

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Svo miklar brotalamir eru í kennslu, skipulagi og framkvæmd lögreglunámsins við Háskólann á Akureyri að það er ekki hægt að treysta skólanum nægilega vel til að halda því úti. Þetta er niðurstaða Gæðaráðs íslenskra háskóla. Ráðið hefur skilað skýrslu um úttekt sína á náminu þar sem víða virðist pottur brotinn.

Gagnrýni frá nemendum kom snemma

Nám í lögreglufræðum hófst í Háskólanum á Akureyri haustið 2016 og Lögregluskóli ríkisins lagður niður samhliða. Ákvörðunin um að hafa námið í HA var gagnrýnd, meðal annars á þeim forsendum að Háskóli Íslands hefði gert það fyrir minni pening og sá skóli var auk þess metinn hæfari faglega séð samkvæmt sérstakri matsnefnd á þeim tíma. Eftir um tveggja ára reynslu kom fram ýmisskonar gagnrýni frá nemendum, og nýútskrifuðum lögreglumönnum, varðandi námið og sögðu margir að það væri ekki að búa þau nægilega vel fyrir það sem koma skildi. Sömuleiðis var staðsetningin, Akureyri, erfið, þar sem margir búa annarsstaðar. Eitthvað var brugðist við þessu og reynt að koma til móts við nemendur. Þetta var 2018. 

Ítarleg úttekt og margar aðfinnslur

Nú hefur Gæðaráð íslenskra háskóla skilað úttekt á lögreglunáminu við Háskólann á Akureyri og er hún birt á vef Stjórnarráðsins. Skýrslan er á ensku og telur 107 blaðsíður. Í tilkynningu stjórnarráðsins segir þó einungis að niðurstöður ráðsins séu í meginatriðum þær að séu tækifæri til úrbóta og endurskoðunar og að gerðar séu athugasemdir við tiltekna þætti sem þurfi að laga. Til dæmis auka gagnsæi fjárveitinga, skýra verkaskiptingu, auka samskipti við ríkið, bæta samræmi varðandi markmið námsins, vinnuframlag og samspil bóklegra faga og faglegrar þjálfunar. Og skýra hæfnikröfur lögreglumanna og móta stefnu um raunfærnimat.

Takmarkað traust til skólans

Það er kveðið aðeins fastar að orði í úttektinni sjálfri. Gæðaráðið segir meðal annars að ofangreint leiði til þess að það sé ekki hægt að treysta því nægilega vel (e. limited confidence) að Háskólinn á Akureyri hafi, og geti í framtíðinni, staðið undir þeim akademískum kröfum sem þurfi til að halda lögreglunáminu úti. Það sé niðurstaðan í ljósi þess að ítrekað sé búið að gera athugasemdir við ýmsar brotalamir, misalvarlegar, sem ekki hafi verið brugðist við. Ítrekað er rætt um fjárveitingar og skort á gagnsæi því tengdu. Sömuleiðis metur gæðaráðið það svo að það sé mjög skýrt í samningi HA og Menntamálaráðuneytisins hvaða kröfur útskrifaðir lögreglumenn eigi að uppfylla, en ekki hvernig þeir eigi að læra í náminu að uppfylla þær kröfur. Þá er sett út á ósamræmi varðandi námið og svo þann raunveruleika sem blasi við lögreglumönnum þegar þeir fara að vinna. 

Háskólinn skilar umbótaáætlun

Í tilkynningu stjórnarráðsins segir að háskólinn muni nú skila umbótaáætlun til gæðaráðsins, sem verði fylgt eftir af hálfu dómsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Gæðaráð íslenskra háskóla er ein af fastanefndum menntamálaráðuneytisins og er samansett af erlendum sérfræðingum, skipað samkvæmt íslenskum lögum. Það ber ábyrgð á eftirliti með háskólum landsins. 

Hér má nálgast skýrslu Gæðaráðsins í heild, neðst á síðunni. 

Fyrirsögn hefur verið breytt