Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjarlægja ein ummæli Helga Seljan úr úrskurði

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Siðanefnd RÚV hyggst leiðrétta úrskurð sinn í máli Samherja gegn 11 starfsmönnum RÚV. Ein ummæli sem nefndin taldi alvarlegt brot á siðareglum snérust alls ekki um Samherja.

Ummælin eru meðal þeirra sem Helgi Seljan, einn stjórnenda fréttaskýringaþáttarins Kveiks, lét falla á samfélagsmiðlum og eru um Eldum rétt en ekki Samherja. Útgerðarfyrirtækið kærði 11 starfsmenn RÚV til siðanefndarinnar vegna ummæla sem þeir létu falla um fyrirtækið á samfélagsmiðlum. Í vikunni og kvað siðanefndin upp þann úrskurð að ummæli hinna tíu starfsmanna RÚV fælu ekki í sér brot.

Formaður siðanefndar RÚV, Gunnar Þór Pétursson, hefur staðfest í tölvupósti til Stefáns Eiríkssonar, útvarpsstjóra, að ummælin um Eldum rétt verði fjarlægð úr úrskurðinum eftir helgi.

Ummælin um Eldum rétt eru eftirfarandi: „Rosalega hlýtur þeim að líða vel með sig núna „andlitunum“ sem tóku þátt í að rétta við ímynd þessa kompanís eftir að upp um það komst.“

Önnur ummæli Helga í úrskurðinum, sem talin eru brot á siðareglum, eru um Samherja. 

Allt undir við endurskoðun siðareglna

Siðareglur RÚV hafa verið til endurskoðunar og segir útvarpsstjóri að þar sé allt undir. Niðurstaða siðanefndarinnar í þessu máli sýni að flýta þurfi þeirri endurskoðun.

Ummæli starfsmanna RÚV voru að stórum hluta viðbrögð við myndbandi sem Samherji birti í ágúst 2020 þar sem fyrirtækið beindi spjótum sínum sérstaklega að Helga, sem var einn þeirra sem unnu að umfjöllun um Samherjaskjölin og meintar mútugreiðslur fyrirtækisins til ráðamanna í Namibíu, í skiptum fyrir kvóta.

Kæra Samherja snéri að 4. málsgrein 3. greinar siðareglna Ríkisútvarpsins en þar segir að starfsfólk sem fjalli um fréttir, fréttatengt efni og sinni dagskrárgerð skuli ekki taka afstöðu í umræðu um pólitísk mál og umdeild, þar á meðal á samfélagsmiðlum.

Siðanefndin fjallaði ekki um fréttaflutninginn sjálfan um Samherja heldur um ummæli starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum um fyrirtækið og mál því tengd.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir