Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm kílómetra bílaröð við Suðurstrandaveg

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Fjöldi fólks er við gosstöðvarnar í Geldingadölum á Reykjanesskaga þessa stundina að virða fyrir sér náttúruöflin. Mikill straumur hefur verið af fólki í allan dag og fram á kvöld. Bílaröðin við vegkantinn á Suðurstrandavegi var um fimm kílómetra löng þegar mest lét að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum.

 

Viðbragðsaðilar eru margir á staðnum, fólk úr slökkviliði Grindavíkur og björgunarsveitum að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Almennt séð hefur dagurinn gengið vel að hans sögn, en eitthvað hefur verið um slys. Þrír hafa verið fluttir með sjúkrabíl til aðhlynningar.

Björgunarsveitarfólk hefur sett upp tjaldbúðir austan við gosstöðvarnar. Tjaldið er upphitað og með sjúkrabúnaði og reykköfunarbúnaði. Tjaldbúðirnar fá að standa fram yfir helgi hið minnsta.

Ekkert útivistaveður á morgun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi í dag frá sér tilmæli um að fólk bíði með að ganga að gosstöðvunum, eftir að smit sem ekki er unnt að rekja og greindist hjá manneskju sem ekki var í sóttkví tengist þeim. Aðdráttarafl gossins virðist varnaðarorðum sóttvarnalæknis yfirsterkari, og mögulega margir sem leita þangað nú vegna veðurspánnar fyrir morgundaginn.

Ekkert útivistarveður verður síðdegis á morgun á suður- og vesturlandi. Þá er búist við austan- og norðaustan stormi eða roki á sunnan- og vestanverðu landinu með snjókomu eða skafrenningi. Appelsínugul viðvörun er í gildi á suðurlandi frá klukkan þrjú á morgun til miðnættis hið minnsta.