Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Borgin mátti takmarka útleigu íbúða til ferðamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Reykjavíkurborg var í fullum rétti að takmarka útleigu íbúða í miðbæ Reykjavíkur til gistiþjónustu með breytingum á aðalskipulagi, samkvæmt dómi Landsréttar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þetta tímamótadóm sem staðfesti sterkan rétt borgarinnar til að ráða skipulagsmálum sínum.

Landsréttur kvað í gær upp dóm í tveimur málum sem fyrirtækið Reykjavík Development höfðaði gegn Reykjavíkurborg og Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrirtækið taldi að brotið hefði verið á sér þegar það fékk ekki að leigja út íbúð í miðbæ Reykjavíkur. Borgaryfirvöld settu ákvæði í aðalskipulag til að sporna gegn skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis þegar straumur ferðamanna til landsins stóð sem hæst og sífellt stærri hluti íbúðarhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur fór úr fastri útleigu í útleigu til ferðamanna. Þetta töldu forsvarsmenn Reykjavík Development að borgin mætti ekki gera, ef hún hygðist setja slíkar kvaðir yrði að gera það í hverju og einu deiliskipulagi en ekki í aðalskipulagi. Að auki fundu þeir að því að rannsóknarskyldu hefði ekki verið sinnt og brotið gegn meðalhófs- og jafnræðisreglum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði rökum fyrirtækisins og hið sama gerði Landsréttur sem sagði sveitarfélög fara með víðtækt hlutverk í skipulagsmálum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á Facebook-síðu sinni að dómurinn marki tímamót og staðfesti sterkan rétt borgarinnar til að stýra skipulagi. 

„Þetta prófmál hefur því umtalsverða þýðingu, jafnvel út fyrir landsteinanna. Með þessu er staðfest að borginni er heimilt að grípa inni í og bregðast við þegar álag af gististöðum og ferðaþjónustu eða uppbygging þeim tengt er komin úr hófi og farin að hafa neikvæð áhrif á borgarbúa eða fjölbreyttni í borgarlífinu,“ skrifar Dagur á Facebook. „Ég er sannfærður að í því felist mikilvægir langtímahagsmunir fyrir okkur öll - líka ferðaþjónustuna - og styrkir Reykjavík í að halda í sérkenni borgarinnar og dreiifa álagi þegar ferðaþjónustan tekur aftur við sér, öllum í hag. Virkileg mikilvæg og ánægjuleg niðurstaða.“

Mynd með færslu
Dómurinn staðfestir sterkan rétt borgarinnar til að stýra skipulagsmálum, segir borgarstjóri.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV