Verslunarmiðstöðin Norðurtorg opnuð á Akureyri í júní

26.03.2021 - 16:52
Í byrjun sumars verður ellefu þúsund fermetra verslunarmiðstöð opnuð í gamla Sjafnarhúsinu á Akureyri. Áætlaður heildarkostnaður við breytingar á húsi og lóð er 2,7 milljarðar króna.

Húsið við Austursíðu 2 hýsti upphaflega efnaverksmiðjuna Sjöfn. Langt er síðan sú starfsemi lagðist af og hefur húsið gegnt ýmsum hlutverkum síðan þá.

Búið að byggja við húsið og gera miklar breytingar

Fasteignafélagið Klettás ehf. keypti húsið í fyrra og frá því í haust hafa um fjörutíu manns unnið þar að miklum breytingum. „Já, við erum búnir að byggja við einhverja 1.650 fermetra og taka mikið í burtu og vonandi verður útkoman frábær,“ segir Pétur Bjarnason, annar eigenda Klettáss.

Telur þetta góða staðsetningu til framtíðar

Nú heitir húsið Norðurtorg og þrátt fyrir að vera í útjaðri bæjarins telur Pétur þetta góða staðsetningu til að byggja upp verslun og þjónustu til framtíðar. „Við sem þekkjum Akureyri vitum það að við þurfum að hugsa aðeins lengra heldur en bara stutt. Og við erum á því að þetta sé framtíðar staðsetning.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Feðgarnir Pétur Bjarnason og Ari Pétursson

Rúmfatalagerinn, Ilva og Tesla

Verslanir Rúmfatalagersins og Ilvu verða þarna í samtals 3.400 fermetra rými og áætlað er opna þær 1. júní. Um leið verða hraðhleðslustöðvar fyrir Tesla bíla teknar í notkun við húsið. Þá segjast eigendurnir vera í viðræðum um að fá matvöruverslun í húsið, en nafn hennar fæst ekki uppgefið. „Já við sjáum það sem frábæra viðbót hérna í 3.500 fermetra pláss sem við eigum í rauninni óleigt,“ segir Ari Pétursson, verkefnastjóri hjá Kettási. Einnig sækja þeir fast að fá á Norðurtorg aðra af tveimur heilsugæslustöðvum sem ákveðið er að opna á Akureyri.

Aðeins sextíu dagar í opnum

„Núna er málningarvinnan að klárast hjá okkur og svo verður lagður dúkur og gólfefni í báðar búðirnar,“ segir Ari. Og það þurfi að vinna hratt næstu vikurnar. „Það eru bara sextíu dagar til opnunar, þannig það þarf bara að drífa sig. Það þýðir ekkert annað.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV