Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stíliseraður áttuóður

Mynd með færslu
 Mynd: Julia Lee Goodwin - Ultraflex

Stíliseraður áttuóður

26.03.2021 - 14:40

Höfundar

Visions of Ultraflex er fyrsta plata íslensk-norska dúettsins Ultraflex. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Ultraflex er skipaður listakonunum Farao frá Noregi og hinum íslensku Special-K (Katrín Helga Andrésdóttir og Kari Jahnsen). Undir þessu heiti hafa þær verið að læða út smáskífum undanfarin misseri sem leika sér með skapalón níunda áratugarins, tónlistarlega sem stíllega. Visions of Ultraflex er breiðskífa þar sem þessum smáskífum er safnað saman en í bland er nýrra efni.

Katrín hefur verið nokkuð virk í íslensku tónlistarlífi síðan hún steig fyrst fram. Sem Special-K gaf hún t.d. út hinar frábærlega titluðu „Ég hefði átt að fara í verkfræði“ og „I Thought I'd Be More Famous by Now“ en seinni platan er hluti af útskriftarverkefni hennar úr Listaháskóla Íslands. Þar blandaði hún saman hinu tón- og sjónræna, ljóðalist, gjörningi, dans og tísku þannig að til varð verk sem teygði anga sína í alla þessa miðla. Í fréttatilkynningu vegna þessarar plötu segir: „Verkefnið er á mörkum þess að vera listrænn gjörningur og hljómsveit og mörg tónlistarmyndböndin gerð af norsku popplistakonunni OKAY KAYA sem að sögn dúettsins gefur tóninn fyrir karakter sveitarinnar.“ Þetta er lykillinn að því að skilja hvaðan sveitin er að koma og hvert hún er að fara.

Konseptið er nefnilega mjög kúl (ákvað að segja ekki svalt, vildi stuðla setninguna). Tónlistin er einslags rafpopp með sterka vísun í hljóðheim níunda áratugarins. Að segja þetta leik að diskói er misvísandi. Þetta er svo undirstungið með ljósmyndum, litum og frábærum myndböndum sem gefa til kynna að nýuppgötvaður sé rafpoppsdúett frá Svíþjóð sem gaf út smáskífur af miklum móð á árunum 1984–1987. Þannig að já, þetta er gjörningur og erfitt að slíta einn miðil frá öðrum í raun. Og þar með erum við komin að helsta vandamáli plötunnar. Tónlistin stendur nefnilega frekar illa einsömul. Þegar best lætur er þetta töff hylling til nefnds áratugar, hljóðin og flæðið, allt er þetta „rétt“ og ég nefni t.d. „Never Forget My Baby“ sem er giska vel heppnuð ballaða af áttu toganum. En þegar verst lætur hljóma lögin eins og tilþrifalitlar hljóðmottur, eins og maður sé stöðugt að hlusta á innganga eða millispil fremur en fullburða smíðar. Ég sakna þess að fá meiri brodd, meira tos, bara eitthvað til að hrista upp í flæðinu sem á það til að vera full eintóna og værðarlegt.

Allur pakkinn er glæstur þar sem eitt styður við annað. En með því að rífa einn hluta úr samhengi við restina vandast málið.