Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smit utan sóttkvíar tengist gosstöðvum á Reykjanesskaga

Þórólfur Guðnason
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Smit greindist í gær í manneskju utan sóttkvíar sem hefur starfað við ferðaþjónustu við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Sóttvarnalæknir ræður fólki frá því að leggja leið sína að gosinu. Þar séu sameiginlegir snertifletir eins og kaðall í brekku. Þá segir hann að enn sé hætta á að smitum fjölgi.

„Það sem vekur mestar áhyggjur hjá mér núna er að tilfellið utan sóttkvíar tengist gosstöðvunum, aðili sem var þar í ferðaþjónustu. Ég held að við verðum að biðla til fólks að fara mjög varlega við gosstöðvarnar, að vera ekki að hópast saman og ekki fara í stórum hópum inn að gosstöðvum. Ég held að það geti verið sýkingarhætta þar hvort sem um skipulagðar ferðir er að ræða eða ekki. Við sjáum hvernig þetta er á leiðinni inn að gosstöðvunum, allir snertandi sama reipið til að komast upp brekkuna. Ég myndi telja að það væri töluverð sýkingar- og smithætta af þessu ferðum öllum inn á gosstöðvarnar eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

Þá hafi sóttvarnalækni borist fregnir af því að einhverjir sem eiga að vera í sóttkví hafi lagt leið sína að gosinu.

„Við vitum að það eru að koma fleiri farþegar núna til landsins heldur en hefur verið áður. Maður getur spurt sig hvort það tengist gosinu,“ segir Þórólfur.

Ekki leyfilegt að ganga að gosi ef maður er í sóttkví

„En það er alveg skýrt að það er ekki leyfilegt að fara á gosstöðvarnar í sóttkví,“ segir Þórólfur.

Þó svo að maður megi fara í gönguferðir í sóttkví, þá má ekki ganga að gosinu?

„Nei, í svona hópum eins og þar eru og eru á leiðinni á göngustígum, það fellur ekki innan ramma sóttkvíar, alveg klárlega ekki,“ segir Þórólfur.

„Ég held að fólk þurfi bara að reyna að slaka á. Ég myndi bara biðla til allra að vera ekki að fara neitt þarna inn eftir eins og staðan er núna. Bæði er veðrið ekki gott, það er hætta á gasi og svo kemur þessi COVID-hætta ofan á allt saman. Þannig að ég myndi biðla til fólk að bíða aðeins með það þar til þetta er yfirstaðið,“ segir Þórólfur og bætir við að vísindamenn spái því að áfram gjósi í Geldingadölum.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV