Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ráðherra kynnti tillögur til úrbóta í brunavörnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágíust Ólafsson
Heimildir til að fjöldi fólks verði skráður á sama lögheimili verða endurskoðaðar og kannað skal hve margir búa húsnæði sem ekki er ætlað til íbúðar. Jafnramt skal skrá alla leigusamninga ásamt því sem skilgreina ber mismunandi tegundir útleigu.

Meta má hvort og í hvaða mæli heimila skuli tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi.

Þetta er meðal þeirra tillagna frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi nú í morgun.  

Ráðherra fól stofnuninni að gera tillögur að úrbótum í brunavörnum íbúðahúsnæðis í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg í júní 2020.

Tillögurnar byggja á niðurstöðu vinnuhóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, rannskóknar stofnunarinnar á brunanum og á vinnu samráðsvettvangs um brunavarnir. Ráðherra ætlar að skipa stýrihóp til að fylgja tillögunum eftir. 

Tryggt skal að íbúðarhúsnæði verði ekki tekið í notkun án þess að gerð hafi verið öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt á því, og byggingafulltrúi og slökkviliði er ætlað að gera sérstakar stöðuskoðanir vegna brunavarna.

Einnig er lagt til að heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum verði endurskoðaðar.

Einnig verði rýmkaðar heimildir þeirra til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits og að lög um brunatryggingar verði endurskoðuð í þeim tilgangi að hvetja til brunavarna.