Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óljóst hvort starfsfólk fær seinni sprautu AstraZeneca

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvort þeir starfsmenn Landspítalans sem fengu fyrri bólusetningarsprautu AstraZeneca, fái seinni sprautuna þegar þar að kemur.

Landspítalinn byrjaði að bólusetja með efni AstraZeneca rétt áður en ákveðið var að bíða með frekari notkun þess á meðan það var rannsakað frekar hvort efnið auki líkur á blóðtappa. Bólusetning með efninu er hafin að nýju, en það er nú aðallega ætlað eldra fólki. Landspítalinn mun því ekki taka aftur upp notkun þess.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir í samtali við fréttastofu að tímabundin stöðvun á notkun AstraZeneca hafi ekki sett stórt strik í reikninginn varðandi bólusetningu starfsfólks, þar sem spítalinn hafi fljótlega fengið efni frá Pfizer í staðinn. Spítalinn er ekki kominn með nægilega mikið magn af bóluefni til að bólusetja allt starfsfólk sitt, en kemst langleiðina þó.

Um tvö þúsund starfsmenn spítalans verði bólusettir á næstu dögum. Í forstjórapistli Páls Matthíassonar í dag kemur fram að yfir 90% starfsfólks verði með því annað hvort fullbólusett, eða búið að fá fyrri sprautu af tveimur. Áfram gildi þó strangar sýkingavarnareglur innan spítalans fyrir alla, burtséð frá stöðu bólusetninga.

Ákvörðun um hvort starfsmenn sem fengu fyrri sprautu AstraZeneca verði fullbólusettir með því, eða fái jafnvel efni frá öðrum framleiðanda í staðinn, verður tekin á næstu dögum. Ákvörðun um slíkt er ekki í höndum spítalans heldur sóttvarnayfirvalda. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.