Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjum stýriflaugum skotið frá Norður-Kóreu

26.03.2021 - 06:23
epa09098066 North Korean leader Kim Jong-un (front) inspects a site on which riverside terraced houses will be erected around the Pothong Gate in Pyongyang, North Korea, 25 March 2021 (issued 26 March 2021). Kim Jong-un did not oversee the launch of a new type of missile that North Korea conducted the same day.  EPA-EFE/KCNA EDITORIAL USE ONLY  EDITORIAL USE ONLY  EDITORIAL USE ONLY  EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Þær fregnir bárust frá Norður-Kóreu í gær að flugskeytin sem skotið var frá landinu í gærmorgun hafi verið af nýrri tegund stýriflauga. Tæpt ár er síðan sprengiflaug var síðast skotið í tilraunaskyni frá Norður-Kóreu. Talið er að tilraunirnar séu til þess að ögra Bandaríkjunum og nágrönnunum í Suður-Kóreu.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tók tilraunirnar alla vega til sín þegar hann sagði í gær að stjórn hans eigi eftir að svara í sömu mynt ef tilraunum Norður-Kóreu fer fjölgandi. Tónn Bidens er því nokkuð annar en var í forvera hans á seinni árum stjórnartíðar hans.

Donald Trump munnhjóst reyndar við Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, í upphafi stjórnartíðar sinnar. En undir leiðsögn Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, náðu þeir Trump og Kim saman. Þeir héldu tvo leiðtogafundi. Fyrri fundurinn var í Singapúr og gekk þá allt að óskum. Þeir undirrituðu sáttmála þar sem kveðið var á um afkjarnorkuvæðingu Norður-Kóreu og afnám alþjóðlegra viðskiptaþvingana gegn ríkinu á móti. Á seinni fundinum í Víetnam slettist svo upp á vinskapinn, þar sem leiðtogarnir gátu ekki komið sér saman um hvort ætti að koma á undan, afnám haftanna eða stöðvun kjarnorkutilrauna. 

Núverandi Bandaríkjastjórn hefur reynt að ná sambandi við stjórnina í Pyongyang. Hingað til hafa allar tilraunir reynst árangurslausar. Biden kveðst að sögn AFP fréttastofunnar reiðubúinn til viðræðna við stjórnvöld í Norður-Kóreu, en engir samningar verði gerðir nema þeir innihaldi afkjarnorkuvæðingu ríkisins.