Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mannskætt óveður í Alabama

26.03.2021 - 06:50
Mynd: AP / AP
Minnst fimm eru látnir eftir að öflugir skýstrókar fóru í gegnum Alabama í sunnanverðum Bandaríkjunum í gærkvöld. Ríkisstjórinn Kay Ivey hvetur fólk sem býr á hættusvæðum að vera á varðbergi. 

Þrjú úr sömu fjölskyldu létust eftir að hafa leitað skjóls í viðarbyggingu í bænum Ohatchee. Einn lést í hjólhýsi í sama bæ og einn í bænum Wellington, hefur AFP fréttastofan eftir Pat Brown, dánardómstjóra í Calhoun sýslu.

Lögregluembættið í Calhoun sýslu skrifaði á Facebook að miklar skemmdir hafi orðið á mannvirkjum í sýslunni. Íbúar eru beðnir um að halda sig heima og alls ekki vera á ferli þar sem búist er við áframhaldandi stormi. Yfir 35 þúsund heimili, stofnanir og fyrirtæki eru án rafmagns í ríkinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV