Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kínverjar beita Breta viðskiptaþvingunum

26.03.2021 - 03:08
Erlent · Asía · Bretland · Kína · Úígúrar
epa09090865 A handout photo made available by the press service of the Russian Foreign Affairs Ministry shows Chinese Foreign Minister Wang Yi speaking during a meeting with his Russian counterpart Sergei Lavrov (not pictured) in Guilin, China, 23 March 2021. Russian Foreign Minister is on a working visit to China.  EPA-EFE/RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY / HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Mynd: EPA-EFE - RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY
Kínversk stjórnvöld tilkynntu fyrir skömmu að níu breskir einstaklingar og fjögur fyrirtæki verði beitt viðskiptaþvingunum fyrir útbreiðslu lyga og misvísandi upplýsinga um meðferð stjórnvalda á Úígúrum. AFP fréttastofan greinir frá.

Vestræn stjórnvöld hafa gagnrýnt mannréttindastöðu minnihlutahóps Úígúra í Xinjiang héraði í norðvestanverðu Kína. Um milljón Úígúra og annarra hópa múslima eru í haldi í því sem mannréttindasamtök segja fangabúðir, en kínversk stjórnvöld nefna endurmenntunarbúðir. Þaðan hafa borist sögur um að ófrjósemisaðgerðir séu gerðar á konum án samþykkis og fólk neytt til vinnu.

Meðal þeirra sem verða beittir þvingunum er Iain Ducan Smith, fyrrverandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Fleiri þingmenn eru á listanum. Kínverska utanríkisráðuneytið segir Breta hafa beitt einhliða þvingunum gegn nokkrum Kínverjum og fyrirtækjum vegna „svokallaðra mannréttindamála í Xinjiang." Þær aðgerðir byggi á lygum og fölsuðum upplýsingum sem brjóti gróflega gegn alþjóðalögum og grunngildum alþjóðasamskipta. Þær séu jafnframt gróf inngrip í innanríkismál Kínverja og grafi undan samskiptum Bretlands og Kína. 

Þvinganirnar þýða að einstaklingarnir mega ekki ferðast til Kína, og gildir það einnig um sjálfsstjórnarhéruðin Hong Kong og Macau. Eignir þeirra í landinu verða frystar og kínverskum ríkisborgurum og stofnunum verður meinað að eiga viðskipti við þá.