Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hálkublettir og skafrenningur víða á vegum

26.03.2021 - 17:59
Mynd með færslu
Hellisheiði. Myndin er úr safni. Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Vetrarfærð er í flestum landshlutum og Vegagerðin hefur þegar lokað nokkrum vegum. Færðin var víða slæm í morgun en nú er orðið greiðfærara samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Hálka og hálkublettir eru víða um Suður- og Suðvesturland og skafrenningur. Greiðfært er orðið á Kjalarnesi.

Á  Norður- og Norðurausturlandi er snjóþekja víða á vegum, skafrenningur eða éljagangur og tveggja tonna þungatakmarkanir á Bíldudalsvegi, niður í Trostansfjörð og norður í Árneshrepp.

Takmarkað skyggni er á fjallvegum Norðan- og Austantil en búist er við að lægi síðdegis. Vegurinn um Þverárfjall er lokaður vegna snjóþyngsla og ófært um Hólasand.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Vegirnir um Öxi og Breiðdalsheiði eru lokaðir en búið er að opna veginn um Þvottárskriður þar sem snjóflóð féll á veginn í morgun.

Vegfarendur um Suðaustur- og Austurland eru hvattir til varúðar vegna hreindýrahjarða sem sést hafa víða við veg. 

Á morgun er spáð austanstormi eða roki, 20 til 28 metrum á sekúndu, með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast austantil á svæðinu. 

Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV