Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm hressandi frá ungum konum og gömlum köllum

Mynd með færslu
 Mynd: WireImage - Lester Cohen

Fimm hressandi frá ungum konum og gömlum köllum

26.03.2021 - 13:00

Höfundar

Það er bráðnauðsynlegt að hafa góða tónlist í stofufangelsinu og skammtur vikunnar ætti að geta hjálpað heimavinnandi fólki í neyð. Djasstrommarinn og teknótæfan Ela Minus ríður á vaðið og í kjölfarið koma Kali Uchis og Enny með takt og trega, svölu krakkarnir í Crumb og svo slá eldri borgararnir Sir Paul McCartney og Beck David Hansen botninn í þetta.

Ela Minus - El Cielo No Es De

Ein af skemmtilegri plötum síðasta árs var plata kólumbíska töffarans og teknótæfunnar Ela Minus, Acts Of Rebellion. Fröken Minus sem gerir út frá New York, lærði tónsmíðar og djasstrommuleik í Berklee-tónlistarskólanum. Hana langaði til að nota námið til að búa til einfalda, heiðarlega danstónlist sem tókst svona framúrskarandi vel hjá henni eins og heyrist vel í laginu El Cielo No Es De.


Kali Uchis - Telepatia

Tónlistarkonan Kali Uchis er eins og Ela Minus af kólumbískum uppruna þó hún sé fædd í borginn Alexandríu í Bandaríkjunum. Hún gaf út sína aðra plötu í fyrra sem hét Sin Miedo og þaðan kemur lagið Telepatia sem er svona laumuhittari úti um allan heim. Síðan má bæta við að Kali vann á dögunum Grammy-verðlaun fyrir samstarf sitt við Keytranada fyrir besta danslagið sem heitir 10%.


ENNY - Same Old

Tónlistarkonan ENNY var með lag sitt Peng Black Girls hér í Fimmunni fyrir stuttu og nú er komið lagið sem á að fylgja vinsældum þess eftir. Lagið heitir Same Old og er í sama tíunda áratugs takts og trega, sálarhljóm sem minnir á Erykuh Badu, Digable Planets og Lauryn Hill.


Crumb - Trophy

Brooklyn-kvartettinn Crumb hefur sent frá sér sitt fyrsta lag síðan þau gáfu út hina frábæru Jinx sem var mikið tekin af tónlistarnöllum á árinu 2019. Crumb eru söm við sig og eru aðeins meira kúl í triphop-skotna indírokkinu sínu heldur en margir aðrir.


Paul McCartney, Beck - Find My Way

Það muna kannski sumir eftir Paul McCartney sem sló eftirminnilega í gegn með Kanye og Rihönnu fyrir nokkrum árum síðan... djók. Bíddu, nú við hvað höfum við hér? Samstarf Pauls McCartney og Beck? Ég var hálfkvíðinn að setja þetta í gang því þetta hefði svo auðveldlega getað farið illa. Ekki það þeir eru svo sem alveg yfir meðallagi góðir tónlistarmenn en það er engin trygging fyrir gæðum þannig lagað. En lagið er bara þrusufínt og það var mikill léttir.


Fimman á Spottanum