Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dalabyggð skoðar sameiningu í Húnaþing og á Snæfellsnes

26.03.2021 - 13:45
Myndir teknar með dróna.
Búðardalur í Dalabyggð Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Byggðarráð Húnaþings vestra og bæjarráð Stykkishólmsbæjar hafa þegið boð sveitarstjórnar Dalabyggðar um fund til að ræða hvort hefja skuli viðræður um mögulega sameiningu við Dalabyggð.

Sveitarstjórn Dalabyggðar sendi þremur sveitarfélögum slíkt erindi, Húnaþingi vestra annarsvegar og Stykkishólmsbæ og Helgafellsveit hinsvegar. Það var niðurstaðan eftir að sex valkostir höfðu verið skoðaðir og metnir, meðal annars á íbúafundi í Dalabyggð.

„Leiði þeir fundir í ljós að vilji sé til sameiningarviðræðna verði tekin afstaða til þess hvort hafnar verði formlegar eða óformlegar sameiningarviðræður. Þá verði ákveðinn tímarammi fyrir þær viðræður og óskað eftir framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að styðja við verkefnið,“ segir í tillögu verkefnishóps sem samþykkt var á síðasta fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar.