Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um helmingur brautskráðra úr lögreglufræðum er konur

Mynd með færslu
 Mynd:
Ríflega helmingur þeirra sem brautskráðist úr diplómanámi í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn á árunum 2018 til 2020 eru konur. Háskólinn á Akureyri hefur útskrifað 142 nemendur í þeim fræðum að því er fram kemur í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Karls Gauta Hjaltasonar þingmanns Miðflokksins.

Í svari dómsmálaráðherra segir einnig að 129 þeirra hafi verið starfandi sem lögreglumenn þann 1. febrúar 2021 eða 91% útskrifaðra. Rétt tæpur helmingur þeirra eru konur, eða 49,6%.

Af þeim 13 sem ekki voru starfandi voru átta í fæðingarorlofi, þar af tveir karlar, einn í launalausu leyfi, einn lánaður tímabundið til annars stjórnvalds og þrír voru ekki á launaskrá 1. febrúar þrátt fyrir að hafa verið starfandi hjá lögreglu síðastliðin ár.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort lögreglumennirnir hafi verið skipaðir eða settir í embætti.

Nú eru 90 nemendur skráðir í BA-nám í lögreglu- og löggæslufræði við HA, þar er hlutfall kvenna 39% en karla 61% að því er fram kemur í svari dómsmálaráðherra. Þegar hafa 33 nemendur brautskráðst með BA-próf þar af 73% konur og 27% karlar.

Snorri Magnússon formaður Landsambands lögreglumanna segir í samtali við fréttastofu að lengi hafi verið á stefnuskrá sambandsins að konum fjölgaði í lögregluliðinu.

Kynjahlutföllin hafi verið að réttast af og lagast frá því sem áður var fyrir tíma háskólanámsins. Heildarkynjahlutfall starfandi lögreglu endurspegli ekki enn það sem sjá megi í náminu.

„Allt tekur sinn tíma, ekki er verið að fjölga lögreglumönnum þannig að þetta tekur lengri tíma fyrir vikið.“ Enn segir Snorri að vanti um 300 lögreglumenn til starfa á landsvísu.

Nú starfa 545 menntaðir lögreglumenn við níu lögregluembætti í landinu. Auk þess strfa 41 afleysingalögreglumaður, 50 lögreglunemar og 24 héraðslögregumenn við embættin.