Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíður að skella í lás aðra páskana í röð

Mynd með færslu
 Mynd:
Skíðasvæðin á Íslandi eru lokuð frá og með deginum í dag, 25. mars og næstu þrjár vikur þar á eftir. Forstöðumenn skíðasvæða svíður að þurfa að skella í lás aðra páskana í röð en segja sigur í glímunni við kórónuveiruna þó mikilvægari.

Lokun skíðasvæðanna byggir á þeirri reglu í nýjum sóttvarnarreglum að fullorðnum jafnt sem börnum verður óheimilt að stunda íþróttir inni og úti sem krefjast meiri nálægðar en tveggja metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar. 

Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar og formaður samtaka skíðasvæða á Íslandi, segir í samtali við fréttastofu að enn beðið eftir upplýsingum um hvort skíðaganga verði leyfð líkt og var í fyrra.

Hann vonast eftir að fá svör frá sóttvarnalækni um þetta í dag. „Fyrir Ísafjörð var þetta leiðinlegt því spáð er snjókomu í næstu viku, sem hefði tryggt góðar skíðabrekkur.“

Hann segir 60% tekna skíðasvæðanna á Ísafirði koma inn um páskana þegar 12 til 1500 manns koma á svæðin á hverjum degi.

Hlynur segir þó nauðsynlegt sé að komast í gegnum faraldurinn og ekkert þýði að pirra sig á ástandinu en vonast til að þetta verði í síðasta skipti sem þurfi að grípa til ráðstafana af þessu tagi. 

Einar Bjarnason, rekstrastjóri í Bláfjöllum, tekur í sama streng og Hlynur varðandi skíðagönguna en segir að enn sé beðið svara frá heilbrigðisyfirvöldum um hvaða leiðir megi fara.

Hann segir að ekki taki því að ergja sig yfir ráðstöfununum, mikilvægt sé að stöðva útbreiðslu veirunnar, en auðvitað sé tímasetningin ekki góð.