Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samningar standa en bólusetning mætti ganga hraðar

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þeir samningar sem Ísland hefur gert um afhendingu bóluefna við ESB standist. Ísland muni fara fram á það að reglugerð Evrópusambandsins þess efnis að hefta útflutning bóluefna verði afnumin.

Margir hrukku vafalítið í kút í gær þegar fregnir bárust frá Evrópusambandinu þess efnis að reglugerð hafi verið sett á þar sem útflutningur bóluefna út fyrir aðildarríki sambandsins skuli heft. 

„Ég hafði samband við Ursulu Von der Layen strax í gærdag og fékk mjög skýr skilaboð með það að þessi reglugerð myndi ekki hafa áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands frá aðildarríkjum ESB, að þeir samningar sem við höfum gert haldi, en hins vegar er það þannig að við gerum kröfu um að þessari reglugerð verði breytt og höfum sett hana fram í skýrum skilaboðum, þ.e.a.s. við verðum formlega undanþegin öllum útflutningshömlum enda teljum við að þessi reglugerð standist ekki EES samninginn,“ segir Katrín.

Vonbrigði hversu hægt bólusetningar ganga

Hún segir að stjórnvöld skoði alla möguleika í bóluefnakaupum, það sé háð því að þau uppfylli öll skilyrði. Í því samhengi hefur meðal annars bóluefnið Sputnik V verið nefnt. Tæplega 20. þúsund manns eru fullbólusettir hér á landi.

Verð menn ekki bara að horfast í augu við það að þetta er hálfgert klúður?

„Við skulum bara segja það eins og það er að við töluðum ekki eins og þetta yrði allt klárt hér í mars. Það hefur aldrei nokkurn tíma nokkur lofað því,“

Það var talað um hálfa þjóðina í vor var það ekki?

„Já, eða um mitt ár, og samkvæmt áætlunum sem við erum með þá stenst það. Sú áætlun er enn í gildi. Það er í sjálfu sér ekkert búið að breytast gagnvart því sem við höfum sagt hingað til en óháð því þá finnst mér að þetta mætti ganga hraðar,“ segir Katrín.

Í samanburði við aðrar þjóðir er Ísland skemur á  veg komið í bólusetningum. Katrín var spurð að því hvort að stjórnmálamenn hefðu getað verið harðari í samningum og hangið á hurðarhúninum hjá bóluefnaframleiðendum.

„Já já, ég hékk nú svolítið á hurðarhúninum hjá Pfizer varðandi þetta tilraunaverkefni okkar,“ segir Katrín.

Það er ekki skemmtilegt í heimsfaraldri

Og nú þegar smitbylgja virðist vera komin aftur af stað spyrja margir sig eflaust að því hvort að forsendur séu til staðar til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið með það tilraunaverkefni.

„Já, nú erum við að tala saman. Ég get bara sagt að auðvitað erum við að skoða alla þessa möguleika en ég held líka fyrir okkur, við erum lítil þjóð. Eðlilega völdum við þessa leið í upphafi að vera með fleiri þjóðum að tryggja okkur fleiri möguleika, ekki endilega veðja bara á einn hest,“ segir Katrín. 

Hún segir að það hafi verið skynsamleg nálgun í upphafi en að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með hversu hægt það hafi gengið að fá bóluefni afhend. Hún segist ekki hafa áhyggjur af því að fólk virði tilmæli og reglur sem tóku gildi á miðnætti að vettugi nú þegar páskarnir eru framundan.

„Nei ég hef ekki þá tilfinningu. Auðvitað er þetta ekki skemmtilegt. Það er ekki þannig. Það er ekkert skemmtilegt að vera í heimsfaraldri. Fólk er bara skynsamt og það veit það alveg. Mér finnst þessi heimsfaraldur allt þetta ár hafa einmitt sýnt okkur það hvað fólk hér á Íslandi er skynsamt. Það fylgja ekki allir regluverkinu alltaf, það er alveg rétt en það er ótrúlega góð þátttaka í þessum aðgerðum. Ég held að við séum alveg einstök hvað það varðar,“ segir Katrín.