Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jansen bóluefnið væntanlegt 16. apríl

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu skammtarnir af Jansen bóluefninu eiga að berast í næsta mánuði að sögn umsjónarmanns bóluefnadreifingar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Aðeins þarf að bólusetja einu sinni með Jansen bóluefninu frá Johnson og Johnson.

Bóluefni frá Pfizer, Moderna og Astra Zeneca hafa þegar borist til landsins, að vísu í mun minna magni en til stóð eða vonast var eftir. Í gær bárust síðan fréttir um að Ísland væri á lista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um ríki sem ekki fengju bóluefni þaðan.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði frá því í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hún hefði haft samband við Ursulu von  der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í gær og fengið mjög skýr skilaboð um að reglugerðin sem málið snýst um hefði ekki áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands. Það sama staðfesti Richard Bergström sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins og situr í samninganefnd sambandsins í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld.

Sem fyrr segir hefur minna borist af bóluefnunum þremur en til stóð, en Bergström segir að með nýjum verksmiðjum þrefaldist  framleiðslugeta Moderna og Pfizer um rúmlega það, en vandamál hafi verið með Astra Zeneca sem hafi aðeins afhent um fjórðung þess sem framleiðandinn skuldbatt sig til. Þar til í sumar verði aðeins um þriðjungur umsamins magns afhentur. Bóluefnið frá Janssen frá Johnson og Johnson sé hins vegar væntanlegt. 

Bergström segir að fyrstu sendingarnar frá framleiðandanum komi væntanlega í flugi til Íslands þann sextánda apríl, að vísu ekki mikið magn, en það aukist í maí og sérstaklega í júní. Bóluefnið sé einkar áhugavert því aðeins þurfi að gefa það einu sinni.