Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Isavia rekið með ríflega 13 milljarða halla árið 2020

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Afkoma Isavia samstæðunnar var neikvæð um sem nemur 13,2 milljörðum króna árið 2020. Viðnúningurinn er um 14,4 milljarðar króna milli ára. Þorra samdráttarins má rekja til þess að farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 81% frá árinu á undan.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi samstæðunnar sem samþykktur var á rafrænum aðalfundi félagsins í dag. Stjórn og varastjórn þess er óbreytt eftir fundinn. 

Orri Hauksson er stjórnarformaður, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson. Varastjórn skipa þau Hreiðar Eiríksson, Ingveldur Sæmundsdóttir, Óskar Þórmundsson, Sigrún Traustadóttir og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir.

Krefjandi ár að baki

Auk þess að reka og byggja upp Keflavíkurflugvöll og Fríhöfnina þar sinna dótturfélögin Isavia ANS og Isavia Innanlands flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og reka innanlandsflugvelli í landinu. Um þúsund manns starfa hjá félaginu.

Tekjur félagsins á árinu námu 14,7 milljörðum króna sem þýðir um það bil 62% samdrátt á milli ára. Staða handbærs fjár nam um 9,4 milljörðum króna í árslok 2020 að því er fram kemur í ársreikningnum.

Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia segir liðið ár hafa verið krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Mikil orka hafi farið í að tryggja fjármögnun og aðgang að lausu fé.

„Heimsfaraldurinn af völdum COVID-19 tók í raun völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia síður en svo varhluta af því.“ Hann segir vörð hafa verið staðinn um innviði félagsins og að tekist hafi að snúa vörn í sókn. 

„Okkur hefur tekist vel við að tryggja aðgang að lausu fé og þrátt fyrir að hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir á síðasta ári um fækkun starfsfólks þá gátum við engu að síður staðið vörð um stærri hluta starfa hjá okkur.“

Áhugi erlendra flugfélaga mikill

Fjármálaráðherra tók þá ákvörðun í ársbyrjun að auka hlutafé í félaginu sem að sögn Sveinbjörns gerði kleift að hefja uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli að nýju. 

Það hafi verið mikilvæg ákvörðun fyrir samkeppnishæfni flugvallarins til framtíðar en ekki síst fyrir atvinnuástandið í nærsveitarfélögum Keflavíkurflugvallar.

Sveinbjörn segir brýnt að taka mið af stöðu faraldursins hverju sinni „Það er engu að síður lykilatriði að missa ekki sjónar á því markmiði að opna Ísland þegar tækifærið gefst.“

Hann kveðst finna fyrir miklum áhuga þeirra flugfélaga sem Isavia þjónar vegna þeirra skrefa sem stjórnvöld hafa stigið til frekari opnunar landsins. 

„Bólusetningar á tveimur af okkar mikilvægustu mörkuðum, Bretlandi og Bandaríkjunum, ganga vel og stjórnvöld á Íslandi hafa boðað afar mikilvæg skref í átt að opnun Íslands.“