Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gætu bólusett um 40 þúsund Íslendinga í apríl

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Hugsanlega verður hægt að bólusetja um tíu þúsund Íslendinga á viku í apríl eða um 40 þúsund manns miðað við tölur frá heilbrigðisráðuneytinu . Þetta eru jafn margir og hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni frá því að bólusetning hófst.

Fréttastofa sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðuneytisins í vikunni þar sem óskað var eftir upplýsingum um afhendingaráætlanir frá bóluefnaframleiðendum.

Stjórnvöld hafa sætt nokkurri gagnrýni fyrir hægagang í bólusetningu og telja einhverjir að það hafi verið mistök að vera í samfloti með Evrópusambandinu.  Ekki dró úr gagnrýni í gær þegar öllu var skellt í lás til að koma í veg fyrir útbreiðslu hins svokallaða breska afbrigðis.

Fjögur bóluefni hafa fengið skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Íslands; Pfizer, Moderna, AstraZeneca og Janssen. 

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu liggur afhendingaráætlun frá Janssen ekki fyrir en bóluefnið var samþykkt í byrjun mánaðarins.   Von er á fyrstu skömmtum þann 16. apríl og segir ráðuneytið í svari sínu að búist sé við litlu magni þá en skömmtum eigi svo að fjölga á næstu mánuðum. Miðað við upplýsingar úr norskum fjölmiðlum verða skammtarnir um 3.500 sem dugar til að bólusetja jafn marga því aðeins þarf einn skammt af bóluefninu.

Staðfest afhendingaráætlun liggur heldur ekki fyrir frá Moderna en ráðuneytið gerir ráð fyrir þrjátíu þúsund skömmtum á öðrum ársfjórðungi eða tíu þúsund skömmtum á mánuði. 

Staðfest afhendingaráætlun frá Pfizer/BioNTech fyrir apríl liggur aftur á móti fyrir og reiknar ráðuneytið með 37 þúsund skömmtum frá fyrirtækinu.  Heildarfjöldi skammta frá bresk/sænska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca í apríl er áætlaður um 25.600 en staðfestar áætlanir eftir þann tíma liggja ekki fyrir.

Gangi þetta eftir dugar skammtafjöldinn í apríl til að bólusetja um fjörutíu þúsund Íslendinga í næsta mánuði eða jafn marga og hafa fengið að minnsta kosti einn skammt frá því að bólusetning hófst.