Fjórtán með réttarstöðu sakbornings í Rauðagerðismáli

25.03.2021 - 10:08
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fjórtán hafa réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á morðinu á Armando Bequiri, ríflega þrítugum fjölskylduföður frá Albaníu. Albanskur karlmaður situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa skotið Armando níu sinnum fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan síðasta mánuð. Sjö eru í farbanni og einum hefur verið gert að afplána eftirstöðvar refsingar í stað þess að vera í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu telur lögreglan sig vera komna með nokkuð góða heildarmynd af því hvað gerðist í Rauðagerði. Enn er verið að skoða hvort morðið tengist einhverju uppgjöri milli hópa.  

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að hann bindi vonir við að hægt verði að senda málið til ákærusviðs lögreglunnar á næstu tveimur til þremur vikum. Þaðan fer það til embættis héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort og þá hverjir verða ákærðir í málinu.

Þetta er langumfangmesta morðrannsókn lögreglunnar til þess. Níu hafa setið í gæsluvarðhaldi og  fjórtán eru með réttarstöðu sakbornings. Tveir þeirra voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í síðustu viku.  Lögreglan hefur farið í húsleit á yfir þrjátíu stöðum, lagt hald á muni og bíla og unnið úr allskonar gögnum frá öllum sakborningum.  Byssan sem notuð var til verksins fannst nýverið en Margeir vildi ekki gefa upp hvar það var.

Athygli vakti þegar lögreglan fór þá óvenjulegu leið að krefjast þess að skipun verjanda eins sakbornings yrði felld úr gildi. Sakborningurinn er eini Íslendingurinn sem hefur verið í haldi lögreglu og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum. Hann er undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að morðinu.

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur féllust á beiðni lögreglunnar og þegar Landsréttur birti ákvörðun sína var það í fyrsta skipti sem úrskurður í málinu leit dagsins ljós.

Þar kom fram að lögreglan teldi lögmanninn, Steinberg Finnbogason, vera mikilvægt vitni. Hann hefði verið í samskiptum við aðra sakborninga, bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi og vitni höfðu sömuleiðis greint frá því að þau hefðu rætt við hann eftir að morðið var framið og eftir að hann var skipaður verjandi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Steinbergur ekki verið kallaður til skýrslutöku, enn sem komið er.