Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppljómun í eðalplómutrénu – Shokoofeh Azar

Mynd: Davíð Kjartan / Davíð Kjartan

Uppljómun í eðalplómutrénu – Shokoofeh Azar

24.03.2021 - 10:33

Höfundar

Uppljómun í eðalplómutrénu er fyrsta skáldsaga íranska rithöfundarins og blaðamannsins Shokoofeh Azar. Hún er bók vikunnar á Rás 1.

Uppljómun í eðalplómutrénu er skrifuð á farsi sem er opinbert tungumál í Íran og móðurmál höfundarins. Bókin hefur þó aldrei komið út í Íran en kom árið 2017 út í enskri þýðingu í Ástralíu og var árið 2018 tilnefnd til áströlsku kvennabókmenntaverðlaunanna Stella. Árið 2020 kom bókin síðan út á evrópskum bókamarkaði og var á úrvalslista tilnefninga til alþjóðlegu Booker-verðlaunanna það sama ár. Bókin kom einnig út árið 2020 í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur í ritaröð bókaútgáfunnar Angústúru, Bækur í áskrift.

Í skáldsögunni Uppljómun í eðalplómutrénu segir frá fimm manna fjölskyldu sem hefur kynslóð fram af kynslóð búið við góð efni í höfuðborg Írans, Teheran. Þegar keisarastjórn Reza Pahlevi er steypt af stóli í svokallaðri íslamskri byltingu í landinu árið 1979 flýr fjölskyldan til fámenns afar afskipts þorps í norðurhluta landsins. Í sögunni segir frá lífi fjölskyldunnar í þessu þorpi, aðdraganda ferðalagsins og afleiðingum næsta áratuginn.

Sagan hefst á uppljómun móðurinnar Rozu, sem er dagsett 18. ágúst 1988, nákvæmlega á sama andartaki og sonur hennar Sohrab er, eins og fjölmargir aðrir, hengdur án dóms og laga af byltingarstjórn erkiklerksins Khomeinis. Sagan fer síðan fram og aftur í tíma og rúmi raunveruleikans og ævintýralegs heims flökkudrauga, skógardísa og fornra fylgismanna Zaraþústra, svo eitthvað sé nefnt af þeim þjóðsagnakenndu persónum sem koma við sögu. Kannski er aðferð töfraraunsæis eina leiðin til að greina frá skefjalausum ofsóknunum og miskunnarlausu ofbeldinu sem klerkastjórnin beitti í Íran til að festa sig í sessi í landi þar sem elstu rætur menningarinnar eru sagðar liggja. 

Skáldsagan Uppljómun í eðalplómutrénu er einnig og ekki síður óður til skáldskapar og lista, menningar heimsins, en fjölskyldufaðirinn Hushang hefur verið tónlistarmaður og augljóslega líka mikill bókmenntamaður eins og reyndar fjölskyldan öll, sonurinn Sohrab og dæturnar Beeta og Bahar. Það er Bahar sem segir söguna, enda tilvist hennar á þessum tíma í sögu fjölskyldunnar með þeim hætti að hún getur verið á mörgum stöðum og mörgum tímum nær samtímis, fylgst ábyrgðarlaus með því sem gerist en líka tekið þátt ef svo ber undir með athugasemdum og jafnvel aðgerðum. 

Shokoofeh Azar er fædd árið 1972 í Teheran inn í mikla bókmenntafjölskyldu líkt og persónur skáldsögu hennar Uppljómun í eðalplómutrénu. Hún hefur í viðtölum sagt að hún byggi frásagnir sínar af ógnaröldinni, sem skall á í Íran þegar Khomeini erkiklerkur sneri til baka úr útlegð sinni í Frakklandi, á sögum fjölmargra ættingja og vina. Shokoofeh er menntuð í bókmenntum og starfaði sem blaðamaður í Teheran framan af starfsferli sínum auk þess sem hún birti smásögur í blöðum og tímaritum. Líkt og ótal aðrir var hún undir ströngu eftirliti yfirvalda. Árið 2011 flúði hún í gegnum Tyrkland og síðan Indónesíu til Ástralíu þar sem hún býr og þar sem bók hennar kom fyrst út.  

Í þættinum Bók vikunnar ræðir Jórunn Sigurðardóttir um skáldsöguna Uppljómun í eðalplómutrénu við þau Kristján Hrafnsson blaðamann, bókmenntafræðing og höfund bókarinnar Þrír skilnaðir og jarðarför og Rebekku Sif Stefánsdóttur kennara í ritlist við Háskóla Íslands, söngkonu og höfund ljóðabókarinnar Jarðvegur.