Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undir fjölskyldusögu er dynur stríðs og blóðsúthellinga

Mynd: Bjartur / EPA

Undir fjölskyldusögu er dynur stríðs og blóðsúthellinga

24.03.2021 - 08:37

Höfundar

Sjálfsævisöguleg skáldsaga Saša Stanišić er uppgjör við þjóðarmorð og ofsóknir sem minnir lesendur á að skæni mennskunnar er þunnt og brotgjarnt.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Reynslan af því að vera rifinn upp með rótum og þurfa að flýja heimaland sitt hlýtur alltaf að skilja eftir sig djúp sár og það er til bókmenntagrein sem snýst um það að einhverju leyti, útlagabókmenntir eða Exilliteratur eins og þær eru kallaðar á þýsku. Þetta eru bækur ritaðar af höfundum í útlegð. Tuttugasta öldin, með sínum hryllilegu styrjöldum, þjóðarmorðum og ofsóknum gegn ýmsum minnihlutahópum, færði okkur megnið af þeim, en það verður vafalaust enginn skortur á þeim á þessari öld heldur, ef svo fer fram sem gerst hefur í lok þeirrar síðustu og á upphafsárum þessarar. Sagan Uppruni eftir Saša Stanišić er eitt af þessum uppgjörum sem öllum er hollt að lesa, og ekki sakar að höfundurinn kann vel að halda á penna.

Þetta er sem sagt sjálfævisöguleg skáldsaga í anda vorra tíma, en án vafa ein þeirra djúpristari og nauðsynlegri, því hún færir okkur fyrir sjónir hvað því fylgir að vera flóttamaður úr eigin landi, að flýja til að halda lífi og fá jafnvel óvinsamlegar viðtökur hjá þeim, sem ættu mannúðarinnar vegna, að taka vel á móti fólki í þessum aðstæðum. Höfundurinn er fæddur í borginni Višegrad í Bosníu við ána Drínu, en þar voru framin hryllileg fjöldamorð árið 1992 og þúsundir féllu í valinn. Móðir höfundarins var bosnísk og faðirinn Serbi og það segir frá því í sögunni að einhver lögreglumaður í bænum spurði hana einn daginn, hvort hún vissi ekki að það væri orðið nokkuð áliðið. Hún fór með fjórtán ára son sinn beinustu leið heim, setti niður í töskur og flúði til Þýskalands.

Þessi saga er samt ekki um stríðið, heldur um fjölskylduna sem sundraðist, reyndar komst faðirinn ásamt tengdaforeldrum sínum einnig til Þýskalands, en þeim var vísað úr landi öllum ásamt móðurinni 1998 eftir áralanga baráttu við útlendingastofnunina þar í landi. Þetta er miklu frekar þroskasaga drengsins og það er alls ekki allt vont sem hann mætir í Þýskalandi, meira að segja einhverjir embættismenn stofnana gerðu honum kleift að vera áfram, stunda þar nám og síðar vinna sem rithöfundur, en það var langt frá því að vera sjálfgefið að hann gæti það, þrátt fyrir að hann hafi „aðlagast“ svo mjög að hann lærði ekki aðeins þýskuna upp á tíu, heldur varð líka þekktur og virtur rithöfundur þar í landi. Hann segir líka frá því á einum stað hvernig hann náði að fljóta í sínu nýja landi:

Þetta er þannig niðurstaða að í henni stendur eftirfarandi setning: Uppreisn mín var aðlögunin. Ekki að væntingunum um það hvernig manni bæri að vera sem innflytjandi í Þýskalandi, en ekki meðvitað gegn þeim heldur. Mótþrói minn beindist gegn tilbeiðslu upprunans og gegn tálmyndinni af þjóðlegri samsemd (215).

Sagan er mjög úthugsuð í forminu og virkar samt gífurlega vel, persónurnar standa manni ljóslifandi fyrir augum, önnur aðalpersónan í sögunni er raunar föðuramma drengsins, kona sem opnar kannski augu hans fyrir uppruna sínum þegar hann kemur í heimsókn aftur árið 2009 og sagan lýsir síðan hvernig hún fer að þjást af elliglöpum, og endurspeglar það á vissan hátt hvernig sögumaðurinn, höfundurinn, er að reyna að vinna úr og muna eftir æsku sinni, bæði í gamla landinu og því nýja. Sagan fer oft á milli tíma, ekki bara í einstökum köflum, heldur líka hreinlega á milli málsgreina og lesandinn verður að vera vakandi, en þetta er mjög vel gert og maður heldur alltaf þræðinum, ekki síst í gegnum persónurnar sem standa fyrir hvern tíma að vissu leyti. Eitt dæmi um hvernig minningin er óljós í huga sögumannsins birtist kannski vel í eftirfarandi orðum:

Staðirnir voru ekki heldur ofhlaðnir af átthagatilfinningu. Višegrad var frásögn mömmu af sjúkrahúsinu í rigningunni, var hlaup á götunum í löggu- og bófaleik, var, á milli fingranna, mýkt greninálanna, var stigagangurinn hjá ömmu með ótal lyktum, var sleðaferðir, var skólinn, var stríð, var liðið (61-62).

Bygging sögunnar er þannig dálítið eins og óreiða minninganna er hjá okkur öllum, ekki neinn söguþráður, beinlínis, þótt sjá megi tímaröð í atburðum og raunar ártölum, sem höfundur nefnir, og einnig leikur hann æði póstmóderníska leiki við lesendur, einkum í lokin þar sem hann býður upp á mismunandi endi sögunnar með því að vísa fram og til baka í aðra kafla í bókinni. Þetta minnti mig svolítið á John Fowles og bækur hans The Magus og Ástkonu franska lautinantsins, en er þó annars eðlis.

Undir fjölskyldusögunni er samt dynur sögunnar, stríðsins og blóðsúthellinganna, við erum fljót að gleyma, en vel kemur fram hvernig hatrið ólgar enn undir, þegar fjölskyldan er að heimsækja ömmuna árið 2018 og er á bíl á króatískum númerum. Lögreglumaður stöðvar þau fyrir hraðakstur án tilefnis, en þegar hann kemst að því að þau eru frá Višegrad, þá breytist allt. Og það er þessi furðulega breyting á fólki sem þjóðernishyggja- og hatur sem við sjáum í sögunni, án þess að hún sé dramatíseruð á neinn hátt. Ég bjó sjálfur í Þýskalandi á þessum árum, í mjög alþjóðlegu umhverfi, en það var tvennt sem sló mig mjög; íkveikjuárásir nýnasista á flóttafólk og innflytjendur í borgunum Mölln og Solingen, og höfundur nefnir þetta líka í sögunni, en ég minnist þess einnig, að eftir að stríðið á Balkanskaganum hófst, þá breyttist sumt fólk sem var í kringum mig gjörsamlega, fólk sem mér fannst opið og frjálslynt fannst það allt í einu þurfa að verja einhvern óskapnað á forsendum þjóðernis síns. Mér fannst þetta vera nær geðsjúkdómi en einhverri lífsskoðun.

Ég bar ekki saman þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur við frumtextann, hún er líka með reyndustu bókmenntaþýðendum landsins og ég hnaut ekki um neitt sem máli skipti. Hún kemur þessum áhrifamikla texta afar vel til skila, sem ekki hefur verið einfalt, því hann er bæði bókmenntalegur og einlægur. Að mörgu hefur verið að gæta við þýðinguna. En nú er hún komin út þessi verðlaunabók, og reyndar kom ein af fyrri bókum höfundar, Hermaður gerir við grammófón út fyrir um 14 árum í þýðingu Bjarna Jónssonar, einnig mjög læsileg, og það er vel að þessi nýja bók komi svona fljótt hingað á íslensku, því bókmenntalegt gildi hennar felst líka í því að minna okkur, án þess að predika eitt augnablik, á hversu mikilvæg mannúðin er fyrir okkur öll, sem búa viljum í siðuðu samfélagi; að skæni mennskunnar er ótrúlega þunnt og brotgjarnt og við verðum að gæta þess traðka það ekki niður, því undir getur leynst hyldýpi sem drekkir mannúðinni á augabragði.