Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óheimilt að binda NPA-samning við fjárframlag ríkisins

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur komst í morgun að þeirri niðurstöðu að Mosfellsbæ væri óheimilt að binda samning um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) við fjárframlag frá ríkinu. Bænum er gert að greiða fötluðum manni fébætur og miskabætur vegna málsins auk þess sem framferðið í garð hans er metið saknæmt.

Erling Smith, 56 ára véltæknifræðingur, sem er lamaður eftir vélhjólaslys árið 2001, hefur verið vistaður um hríð gegn vilja sínum á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ.

Bærinn tók sér 27 mánuði til að afgreiða málið frá því að Erling sótti um notendastýrða persónulega aðstoð. Héraðsdómur metur þann drátt óhæfilegan.

Bæjaryfirvöld synjuðu Erlingi um samning um langa hríð og voru dæmd ábyrg fyrir því fjártjóni sem hann hefði orðið fyrir meðan á þvingaðri dvöl hans stóð. Jafnframt voru honum dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur úr hendi bæjarfélagsins.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, fagnar niðurstöðunni og segir hana vera stórkostlegt réttindamál og mikinn sigur fyrir fatlað fólk.

„Mikill fjöldi manns er á biðlista eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð, eða hefur hreinlega verið synjað um hana, vegna þess að sveitarfélögin benda á að ríkið hafi ekki fjármagnað sinn hluta. Í þessum dómi eru þær mótbárur slegnar út af borðinu.“

Dómurinn telur einnig að sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu umsóknar Erlings um NPA sé saknæmur enda ekki heimild í lögum til að binda rétt fatlaðs fólks við fjárframlag úr ríkissjóði.

Einu megi gilda gagnvart fólki hvernig skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga sé háttað.