Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kári: Stjórnvöld hljóta að skella í lás í dag

24.03.2021 - 10:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti - RÚV
Kári Stefánsson segir að stjórnvöld hljóti að skella í lás strax í dag í ljósi þeirra smita sem greindust seinustu daga. Hann segir að réttast hefði verið að skella öllu í lás á mánudaginn þegar fyrstu vísbendingar voru um að breska afbrigðið væri komið á flug.

Fréttastofa náði tali af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem eins og aðrir hefur áhyggjur af stöðu mála í kórónuveirufaraldrinum. „Stjórnvöld hljóta að skella í lás í dag,“ segir Kári.

Von er á tillögum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra í dag og ríkisstjórnin mun funda um þær tillögur og síðan boða til blaðamannafundar.

Kári segir að í fyrstu hafi ekki legið fyrir nægjanlega mikið af gögnum um hið svokallaða breska afbrigði en þau gögn sé til staðar núna og hægt sé að fullyrða að það smiti meira. Þá séu vísbendingar um að veiran fjölgi sér hraðar í nefkoki en önnur afbrigði.

Kári er reyndar þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að skella öllu í lás á mánudag þegar fyrstu vísbendingar voru um að þetta afbrigði væri að fara á flug. „Ef við gerum þetta myndarlega strax þá getum við komist fyrir þetta á skömmum tíma. Við höfum hreyft okkur aðeins of hægt og það hefði verið skynsamlegt að gera þetta strax á mánudag en stjórnvöld gera þetta vonandi í dag og þá eigum við smá séns.“ Kári vonar jafnframt að stjórnvöld hlusti á sóttvarnalækni um að herða þurfi eftirlit með landamærunum.