Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hógværð og kærleikur einkenna Pritzker-verðlaunahafa

Mynd: Philippe Ruault / Pritzker

Hógværð og kærleikur einkenna Pritzker-verðlaunahafa

24.03.2021 - 14:18

Höfundar

Arkitektarnir Anne Lacaton og Jean-Phillip Vassal hlutu á dögunum virtustu alþjóðlegu verðlaun arkitekta, Pritzker-verðlaunin. Valið þykir vera til marks um breyttar áherslur í samtímaarkitektúr.

Pritzker-verðlaunin eru einhver virtustu alþjóðlegu verðlaun sem arkitektum getur hlotnast í sínu fagi. Verðlaunin hafa verið veitt frá 1979 þegar bandaríski arkitektinn Philip Johnson var fyrstur til að hljóta þau. Oftast hafa verðlaunahafar verið þekktar stjörnur með sterk höfundareinkenni, bandaríski arkitektinn Frank Gehry með sín skúlptúrísku hús er gott dæmi sem margir þekkja.

Verðlaunahafarnir sem kynntir voru í liðinni viku komu mörgum á óvart og þykir valið vera tímanna tákn. Frakkarnir Anne Lacaton og Jean-Phillip Vassal eru þekkt fyrir að umbreyta gömlum byggingum frekar en að byggja nýjar. Byggingar þeirra gera allt annað en að taka sér pláss og skara fram úr í borgarlandslaginu, þvert á móti eru þær hógværar og snúast oftar en ekki um að breyta gömlum óhagkvæmum byggingum í falleg heimili fyrir fólk. Sjálf segjast þau vilja byggja fyrir fólk með kærleika að leiðarljósi. 

Hildigunnur Sverrisdóttir, deildarforseti arkitektúrs við Listaháskóla Íslands, er sammála því að valið sé til marks um breyttar áherslur í arkitektúr samtímans.

„Þetta er fólk sem hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að þessum stóru arkitektanöfnum, að því leyti að þeirra veldi hefur byggst upp á því að byrja að spyrja grundvallarspurningarinnar: Þurfum við byggingu yfir höfuð?“ Hildigunnur nefnir sem dæmi þegar þau voru beðin um að taka stórt torg í gegn. Þau sáu hins vegar enga ástæðu til að breyta því og stungu upp á að peningarnir yrðu nýttir í annað skynsamlegra.

Rætt var við Hildigunni í Samfélaginu á Rás1.

Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker
Anne Lacaton og Jean-Phillip Vassal
Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker
Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker
Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker
Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker
Mynd með færslu
 Mynd: Philippe Ruault - Pritzker