Geta allir á Íslandi farið í sturtu á sama tíma?

Mynd:  / 

Geta allir á Íslandi farið í sturtu á sama tíma?

24.03.2021 - 10:45

Höfundar

Þegar þú skrúfar frá krananum heima hjá þér, eða ferð í sturtu, hugsarðu einhvern tímann út í það hvernig allt þetta vatn streymir fram stríðum straumum eins og ekkert sé eðlilegra?

Í nýjasta þætti af Þú veist betur fór Olgeir Örlygsson hjá Veitum yfir hvernig vatnið sem við notum alla daga kemur til okkar, hvernig við byrjuðum að átta okkur á mikilvægi lagnakerfis og af hverju það var ekkert sérstaklega góð hugmynd að láta vatnsbera flytja vatn og skólp í sömu ferð. „Það eru svona um það bil 140 lítrar á sólarhring sem hver persóna notar,“ segir Olgeir.

Titillinn á þættinum er hugsanlega ruglandi því að þó við ætlum að tala aðeins um vatn, þá er hér ekki átt við um vatn í efnislegum skilningi, eða efnasambandið H2O. Það er í besta falli eiginlega óskiljanlegt, fyrir okkur hér á Íslandi að minnsta kosti, að vatn er nánast hvar sem við lítum. Kranar, sturtur, klósett - bara til að nefna nokkra hluti sem eru heima hjá okkur, og út úr þeim kemur heitt eða kalt vatn eins og okkur lystir. Hvaðan kemur þá allt þetta vatn, hvernig geta rúmlega 340 þúsund íbúar þessa lands litið á vatn sem svona sjálfsagðan hlut?

Það er nánast ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir aðeins meira en 100 árum hafi vatn verið sótt í brunna, því hellt í fötur og það svo borið heim til efnameiri fólks í Reykjavík. Í leiðinni hafi skólpföturnar verið teknar með til baka, sem getur ekki hafa verið sérstaklega geðslegt og alls ekki heilsusamlegt eins og kom síðar í ljós þegar Íslendingar byrjuðu að eiga við sjúkdóma eins og taugaveiki. Olgeir segir að vatnsnotkun sé mismunandi eftir tíma dags og sú mesta sé, „á heitustu sumardögunum og svo milli klukkan 16 og 18 á aðfangadag.“

Svo var lögð ein pípa úr Elliðaánum, og þaðan rann vatnið á ákveðna staði í Reykjavík. Gvendarbrunnar og Vatnsendakriki eru stóru póstarnir, allavega hér á höfuðborgarsvæðinu. Þaðan fáum við vatnið okkar, sem er dælt upp úr jörðinni, safnað í tanka hér og þar um höfuðborgarsvæðið, eins og þennan sem er grafinn ofan í jörð hjá Veðurstofunni en rúmar stórkostlegt magn af vatni. Bandaríkjamenn og Bretar áttu stóran þátt í að byggja upp vatnsveitukerfið okkar, ekki endilega fyrir okkar hönd, þá einfaldlega vantaði meira vatn, við græddum hins vegar á öllu brasinu. Við höfum þróað og betrumbætt kerfið okkar með árunum, en það skilur samt eftir fleiri spurningar. Við höfum öll heyrt um að milli 16 og 18 á aðfangadag fari nánast allir Íslendingar í sturtu á sama tíma, en hvernig í ósköpunum getum við skaffað öllu þessu fólki vatn, hvenær og nánast hvar sem það er?

Í nýjasta þætti af Þú veist betur um vatn fer Olgeir Örlygsson hjá Veitum yfir allt þetta ferli, frá sögu til framtíðar með stoppi í nútímanum í leiðinni.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild hér.