Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Allir nemendur Árskóla komnir með sitt eigið snjalltæki

Mynd með færslu
 Mynd: Ingvi Hrannar Ómarsson - RÚV
Árskóli á Sauðárkróki varð á dögunum fyrsti stóri skólinn á Íslandi þar sem allir nemendur hafa sitt eigið snjalltæki til umráða. Nemendur eru 340 og tæpur áratugur er síðan skólinn hóf að fjárfesta í spjaldtölvum.

Verkefnið tók um áratug

Staðarblaðið Feykir greinir frá þessu. Þar kemur fram að skólinn eigi öll tæki nemenda í 1.-6. bekk en í 7.-10. bekk geta foreldrar valið um hvort nemendur eða skólinn eigi tækin. Í eldri bekkjum gefst foreldrum kostur á að kaupa tækin sjálf með niðurgreiðslu frá skólanum. 

Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi og verkefnisstjóri segir að miklar breytingar hafi átt sér stað á síðustu árum. „Þetta er verkefni sem er búið að taka tæpan áratug og er sífellt í þróun. Og ekki bara hjá okkur í Árskóla heldur eru hinir tveir skólarnir í sveitarfélaginu í sömu vegferð, Varmahlíðarskóli og Grunnskólinn austan Vatna,“ segir Ingvi.

Langflestir ánægðir með þróunina

Árið 2020 gerði fræðsluþjónusta Sveitarfélagsins Skagafjarðar stöðumat á innleiðingu spjaldtölvuverkefnis til þess að varpa ljósi á hverju það væri að skila. Þar kom fram að 97% nemenda töldu námsáhuga sinn eins eða betri eftir að spjaldtölvurnar komu. Þá sögðu um 80% nemenda að tækninotkun hefði aukið fjölbreytni í námi og verkefnum. Þá kemur fram að  90% foreldra telja að kennsluhættir skólans hafi breyst að miklu eða einhverju leyti. 

„Erum að undirbúa börn fyrir framtíðina þeirra, ekki fortíðina okkar“

Ingvi segir að þrátt fyrir að flestir séu ánægðir með þróunina eigi það ekki við um alla. „Nei, nei, auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta eins og annað og margir sem vilja bara hafa skólann eins. Við verðum bara að muna að við erum að undirbúa börn fyrir framtíðina þeirra, ekki fortíðina okkar.“

Hann segir að auk iPad spjaldtölvu sem allir nemendur skólans hafa til umráða séu um 70 Chromebook fartölvur í skólanum. „Þannig að sú staða kemur stundum upp að hver nemandi er með tvö tæki í einu, kannski að vinna verkefni á eitt og lesa heimildir á öðru.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Ingvi Hrannar Ómarsson - RÚV