Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

200 til 300 manns útsettir fyrir smiti síðastliðna viku

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
200 til 300 manns hafa verið útsettir fyrir smiti síðastliðna viku og í gær greindust 11 nemendur í 6. bekk Laugarnesskóla. Þrjár hópsýkingar hafa komið upp undanfarnar þrjár vikur, hægt hefur verið að tengja tvær þeirra saman með raðgreiningu en ekki er vitað um uppruna þeirrar þriðju.

Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sem hann sendi heilbrigðisráðherra í morgun. Hann segir að nemendurnir hafi útsett fjölda einstaklinga fyrir smiti á undangengnum dögum og tengjast vafalaust þessari þriðju hópsýkingu.

Í minnisblaðinu er að finna afdráttarlaus varnaðarorð við breska afbrigðinu og nauðsyn þess að grípa til harðra aðgerða og koma þannig í veg fyrir fjórðu bylgjuna. „Rannsóknir erlendis hafa sýnt að breska afbrigðið er til muna meira smitandi en flest önnur afbrigði og norskar rannsóknir sýna að spítalainnlagnir eru meira en tvöfalt algengari hjá öllum aldurshópum einnig hjá börnum eldri en 6 ára,“ skrifar sóttvarnalæknir.

Þórólfur segir að reynsla yfirvalda hafi kennt þeim að nauðsynlegt sé að bregðast við núverandi sýkingum hratt og af festu og nefnir þar sérstaklega þriðju bylgjuna. „Ég legg því til að gripið verði til sambærilegra sóttvarnaaðgerða og þeirra sem sýndu sig að virka til að kveða niður þriðju bylgju faraldursins og að aðgerðirnar nái til alls landsins.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV