Vísindasystur í lofti og jörð

Mynd: RÚV / RÚV

Vísindasystur í lofti og jörð

23.03.2021 - 09:21

Höfundar

Fyrst í sjónvarpsviðtal þegar gos hófst við Fagradalsfjall var náttúruvársérfræðingurinn Sigurdís Björg Jónasdóttir sem var á vakt á Veðurstofunni þegar allt fór af stað. Mörgum fannst þeir kannast við svipinn þegar hún birtist pollróleg í beinni útsendingu að segja þjóðinni frá því litla sem þá var vitað um gang mála. Sigurdís er systir annars starfsmanns Veðurstofunnar, Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfréttakonu með meiru.

Systrasvipurinn leynir sér ekki og þær deila smitandi áhuga og ástríðu fyrir náttúru og undrum landsins. Þær fóru þó hvor í sína áttina með sérhæfinguna, Elín er í veðri og vindum og Sigurdís í jarðfræði og ofanflóðum. Báðar flinkar við að koma annars frekar flóknum fræðum frá sér á mannamáli. Sem er góður eiginleiki þegar allt verður vitlaust, eins og varð á föstudagskvöldið síðasta. „Ég var að staðsetja jarðskjálfta og eiginlega bara í rólegheitunum,“ segir Sigurdís sem hafði tekið aukavakt . „Það var búið að minnka svo skjálftavirknin. Ég var bara að flokka te inni í eldhúsi, bara að fá mér te í rólegheitunum, en heyri þá skrítið símtal frammi hjá Bjarka (Kaldalóns Friis, veðurfræðingi) sem var á vakt með mér.“

Símtalið snýst um ljósbjarma sem sést á Reykjanesskaga. Sigurdís og Bjarki fara að rýna í vefmyndavélar og þeim sýnist eitthvað birtast þar. „Það er einhver bjarmi,“ segir Sigurdís. En mælitækin sýna ekkert. Ákveðið var að senda lögreglumann frá Keflavík af stað til að reyna að fá staðfestingu. Það gekk brösulega og á meðan berast nokkrar fleiri tilkynningar um birtuskin. Mælarnir gefa ekkert uppi og í raun kemur besta staðfestingin fyrst með gervitunglamynd sem tekur af allan vafa um hvers vegna það hefur birt yfir Geldingadölum.

Elín Björk er heima hjá sér, þreytt eftir næturvakt og var að hugsa um að fara að snemma að sofa. Þá hringir síminn, það er Veðurstofan og það eina sem er sagt, eiginlega öskrað, er „GOS!“ og svo er skellt á. Elín Björk hrópar sjálf „GOS!“ yfir fjölskylduna sína og hleypur út.

„Þetta var mjög taugatrekkjandi,“ segir Sigurdís sem var nú komin á eitthvað allt annað en rólega kvöldvakt. Starfsfólkið þurfti snarlega að virkja allar áætlanir og hringja alla út og svara öllum símtölum. Allt í einu. „Við vorum öll farin að titra, þetta var mjög spennandi.“ Sigurdís þurfti svo í ofanálag að leggjast yfir mælitækin, lesa gaumgæfilega úr gögnum, reyna að staðsetja gosið. Hægara sagt en gert þegar öll símtæki glóa og fjölmiðlarnir farnir af stað og enn eiginlega ekkert hægt að segja þeim.

Þegar gos brýst út og allt fer af stað, er hætt við að þeim störfum sem þarf að sinna, þessi reglubundnu verk, gleymist. Eins og að lesa veðurfréttir sem er í höndum vakthafandi starfsfólks. Sem betur fer vildi svo til að Elín Björk var mætt og sat inni í hljóðstofu Veðurstofunnar. „Ég fór sem sagt í viðtal því Stína (Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunnar) fór í flug, og ég var sett í að tala við Brodda (Broddason fréttamann) og taldi upp það sem við vissum,“ segir Elín Björk. „Og svo klárast fréttatíminn og enginn kemur inn og ég heyri bara Næst verða lesnar veðurfregnir frá veðurstofu Íslands og ég bara já, ég geri það þá bara.“ Systurnar hlæja. Fram undan var löng nótt. En í störfum eins og þeim sem þær systur gegna er þetta hápunkturinn.

Enn sem komið er hafa þær ekki farið að skoða gosið. Og ekki fara þær í dag, enda taka þær mark á veðurfréttunum sem önnur þeirra segir. Þær ætla að sjá til á morgun, þriðjudag. „Á morgun er betra veður og hafi fólk, eins og við, ekki farið að gosstöðvunum þá er ágætt að gera það fyrri hluta dags. En svo spáir hægviðri á Reykjanesskaga og þá getur gasmengunin orðið mjög mikil.“ Það þurfi að fara varlega og kynna sér aðstæður vel. Og Sigurdís segist ekki ætla að koma nálægt Nátthagasvæðinu „Já, kvikugangurinn er þar undir og ég myndi alls ekki vilja vera þar, frekar fara hinum megin við fellið og upp.“ Og Elín Björk bætir við „Fólk á að geta verið öruggt en það þarf að fylgja leiðbeiningum.“ En þær skilja vel að gosið dragi að. „Ég verð að sjá þetta, ég er svo spennt,“ segir Sigurdís. „Líka því ég var í öllu aksjóninu þegar þetta byrjaði!“

Hlusta má á viðtal Þórhildar Ólafsdóttur við Elínu Björk og Sigurdísi í Samfélaginu á Rás 1 í spilaranum hér að ofan.