Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vill jafnvel skylda alla komufarþega í farsóttarhús

23.03.2021 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til í nýjasta minnisblaði sínu að víðtækt samráð verði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, Sjúkratryggingar Íslands og Rauða krossinn um hvort hægt sé að skylda flesta eða alla þá sem ferðast hingað til lands til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan á sóttkví eða einangrun stendur.

„Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra,“ segir í minnisblaðinu. 

Heilbrigðisráðherra gengur ekki eins langt

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst ganga mun styttra og skylda í farsóttarhús aðeins þá sem ferðast hingað frá sérstökum áhættusvæðum, þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 í búa er yfir 500. Það eru svæði sem Sóttvarnastofnun Evrópu skilgreinir annars vegar sem dökkrauð (nýgengi smita yfir 500), eða sem grá svæði (upplýsingar um nýgengi skortir). 

Telur stjórnvöld taka áhættu með bólusetningarvottorðum

Þórólfur vekur einnig athygli á því að hann telji stjórnvöld taka áhættu með því að láta reglugerð um viðurkenningu bólusetningarvottorða frá ríkjum utan EES-svæðisins taka gildi strax 26. mars. Hann leggur líka til að reglubreytingin gildi aðeins um Bandaríkin, Bretland og Kanada. „Þetta verði tímabundin ráðstöfun þar til að frekari reynsla kemst á þetta fyrirkomulag en þá verði vottorð frá fleiri löndum tekin gild,“ segir í minnisblaðinu. 

Jafnframt telur hann vissast að þeir sem framvísa bólusetningarvottorðum þurfi þrátt fyrir það að fara í fyrri skimun á landamærunum. „Þetta er lagt til í ljósi þeirrar reynslu að fyrir nokkrum dögum greindist bólusettur farþegi með SARS-CoV-2 veiruna í nefkoki,“ skrifar hann og bendir á að enn sé óljóst hvort ný afbrigði veirunnar kunni að sleppa undan vörnum bóluefna og fyrri sýkinga. 

Hættan stafar af landamærunum

Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að hætta af útbreiddum faraldri innanlands stafi nú helst af því að illa takist að stöðva smit á landamærum. „Mikið ríður því á að við náum að beita áhrifaríkum aðgerðum á landamærunum til að lámarka enn frekar áhættu á smiti. Þó vel hafi tekist til með að koma í veg fyrir smit frá ferðamönnum þá er hægt að bæta ákveðnar aðgerðir án þess að þær verði of íþyngjandi.“

Margir greinst í seinni skimun þrátt fyrir neikvætt PCR

Upp á síðkastið hafa smit verið fátíð innanlands en fjölgað mjög á landamærum og suma daga hafa allt að 10 smit greinst. „Flestir af þeim framvísuðu neikvæðu PCR prófi við komu, reyndust neikvæðir í fyrstu skimun en síðan jákvæðir í skimun tvö,“ skrifar Þórólfur í minnisblaðinu. Þetta bendi til þess að margir hafi smitast skömmu fyrir komu hingað til lands og eru þess vegna neikvæðir í fyrstu prófum. Ástæðan sé vafalaust sú mikla útbreiðsla COVID-19 í flestum nágrannalöndum okkar.

Hann minnir á að þau smit sem greinst hafa innanlands að undanförnu tengist smituðum ferðamönnum og fullyrðir að oft á tíðum hafi litlu mátt muna og mikil mildi að smitin hafi ekki hrundið af stað stærri hópsýkingum. 

Hafa ekki boðað hertar reglur um stutta dvöl

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að lögreglan á landamærunum hefði kallað eftir hertum reglum og eftirliti með fólki sem hyggst dvelja á Íslandi í mjög stuttan tíma, jafnvel styttri tíma en sóttkví á að standa yfir.

„Við erum að ýta á það núna ásamt sóttvarnalækni að reglum verði breytt þannig að þegar við sjáum svona getum við keyrt fólk beint í sóttvarnahús þar sem það er undir eftirliti,“ sagði hann. Ekki hafa verið boðaðar breyttar reglur um stutta dvöl, en Þórólfur fjallaði ekki um slíkar reglubreytingar í nýjasta minnisblaði sínu.