Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verða að fara í farsóttarhús við komuna til landsins

23.03.2021 - 11:57
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Allir þeir sem koma frá svæðum sem eru eldrauð á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu verður að fara í farsóttarhús við komuna hingað til lands. Þessi breyting tekur gildi um leið og búið er að útvega nægilegt húsnæði til að til að hýsa fólk sem kemur frá þessum svæðum. Börn sem koma til landsins verða að fara í sýnatöku rétt eins og fullorðnir, en þau hafa hingað til verið undanþegin sýnatöku.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu í viðtali við Hauk Holm fréttamann að loknum fundi ríkisstjórnarinnar skömm fyrir hádegi. Þetta byggir á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um breytt fyrirkomulag sýnatöku og sóttvarna á landamærunum.

Sýni verða tekin af börnum sem koma til landsins og fólk sem kemur frá sérstaklega hættulegum svæðum, þar sem faraldurinn er í fullum gangi, verður að fara í farsóttarhús meðan það bíður síðari sýnatöku eftir komuna til landsins.

Svandís sagði að fjölga þyrfti sóttvarnahúsum vegna þessara breytinga„ Það stendur yfir núna að við erum að leita leiða til að leigja nægilega mörg hús til að standa undir þessari breytingu. Sóttvarnalæknir telur þetta mjög mikilvægt til þess að ná betur utan um, sérstaklega þann hóp sem er að koma fram með mögulega neikvætt sýni bæði á landamærunum og í fyrri sýnatöku en kemur svo fram með jákvætt í þeirri seinni. Það er mjög mikilvægt að sóttkví sé haldin á þessum fimm dögum á þessu fólki sem kemur frá þessum eldrauðu svæðum.“

Uppfært 12:38 Heilbrigðisráðherra sagði í viðtalinu að börn yrðu væntanlega látin fara í sýnatöku frá og með morgundeginum en í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að ný reglugerð taki gildi 1. apríl. Hún gildir bæði um sýnatöku barna og dvöl í farsóttarhúsi.