Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja atvinnulífið bera ábyrgð á kynjahlutfalli

Mynd: RÚV / RÚV
Allir forstjórar fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands eru karlkyns. Þeim hefur fjölgað undanfarin ár en hlutfallið er áfram það sama. Hluthafar með mikinn eignahluta í fyrirtækjum gætu breytt þessu að mati Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Eyri Venture Management.

Andrés Jónsson almannatengill, setti fyrir þremur árum saman færslu þar sem hann fór yfir aldur og kyn forstjóra skráðra fyrirtækja í kauphöllinni og fyrir viku tók hann saman samskonar lista. Hann ræddi þetta mál ásamt Stefaníu í Mannlega þættinum á Rás eitt. 

„Það var mikil umræða þá um að fjölga þyrfti konum í hópi forstjóra stærstu fyrirtækjanna. Allir virtust sammála um að þetta þyrfti að gera,“ segir Andrés. Fyrirtækin eru nú nítján og frá því í janúar 2018 hefur verið skipt um meira en helming forstjóra fyrirtækjanna.

Ástæðan ekki sú að konur sækist ekki eftir störfunum

Það eru tíu nýir forstjórar og allir eru þeir karlkyns. „Þetta eru allt nýráðningar,“ segir Stefanía og bætir við að ástæðan sé ekki sú að konur séu ekki hæfar í þessi störf.

„Ástæðan er ekki sú að þær sækist ekki eftir þeim, heldur ekki sú að ekki sé nóg til af konum, við erum helmingurinn af vinnuaflinu á Íslandi. Það er eitthvað annað sem skýrir þetta.“ 

Lögum samkvæmt ber fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórnum þeirra sé yfir 40%.  

„Stjórnir geta áfram verið íhaldssamar. Ef tveir eða þrír eru ekki til í að taka slaginn um jafnrétti og taka þessa ákvörðun,“ segir Stefanía og tilgreinir nokkur fyrirtæki sem hafa tekið þá ákvörðun að fjölga konum í framkvæmdastjórn.

„Það erfitt fyrir manneskjuna sem vill breyta þessu að standa kannski ein á móti þremur. Þess vegna er ábyrgð eigenda mikil,“ segir Stefanía og veltir fyrir sér hvort krafan um samfélagslega ábyrgð sé nægilega hávær.

Tilheiging að ráða einhvern sem stjórnir þekkja 

„Oft eru þessar stöður ekkert auglýstar, ekkert gagnsæi ríkir um hvernig ráðið er í þessar stöður enda er það ekki hægt.“ Stefanía segir það hjálpi til við að koma breytingum í gegn komi fram krafa um það frá stórum hluthöfum á borð við lífeyrissjóðina sem eiga mikinn hlut í mörgum þessara fyrirtækja.

„Það er tilhneiging að velja einhvern sem maður þekkir, það er erfitt að horfa inn í einhvern annan hóp,“ segir Stefanía og oft sé sá sem verður fyrir valinu einhver sem stjórnin þekkir og veit hvað hefur að bjóða.

„Það þarf miklu hugrakkari nálgun í þessarri nálgun.“ Andrés segist ekki vilja nota orðið hugrekki um fjármagnseigendur og greinendur þeirra sem stýra fjárfestingum lífeyrissjóðanna heldur ríki mikil einsleitni og hópsálarhugsun.

„Það er hræðsla við að skera sig úr og að það sé híað á þig. Hí á þig, þú réðir bara einhverja konu og þá fór bara allt að ganga illa hjá þér.“

Þótt illa fari að ganga eftir ráðningu karls er það ekki álitið skýring að sögn Andrésar sem segist hafa unnið sem almannatengill með mörgum konum sem hafi brotið glerþakið.

Konur teknar harðar fyrir eftir mistök

„Allir æðstu stjórnendur gera mistök, en konur eru teknar miklu harðar fyrir. Það skortir hugrekki enda er verið að horfa á þá sem eiga peninga og stýra. Þú vilt ráða einhvern sem allir eru sammála um hefur gert rosalega góða hluti. Við vorum heppnir að ná honum,“ segir Andrés.

Hann bætir við að kerfið viðhaldi sjálfu sér. „Þetta er eitthvað inngróið og annað hvort tekur atvinnulífið ábyrgð á þessu og breytir þessu bara núna. Við ætluðum að gera það fyrir þremur eða fimm árum en það hlýtur að koma að því að það verður mikil tiltekt sem þarf að koma til fyrir einhverja aðra krafta.“

Andrés og Stefanía sögðu bæði falskan hljóm í því að forsætisráðherra klingdi bjöllu Kauphallarinnar fyrir jafnrétti og kváðust vona að þurfa ekki að heyra hljóm bjöllunnar vegna þess að ári. „Það voru til jafnhæfar eða hæfari konur í mörg af þessum störfum. Sá sem var ráðinn getur ekkert að því gert,“ segir Andrés.

Stefanía segir að ráðningar snúist ekki alltaf um hæfasta eintaklinginn heldur að búa til fjölbreytt, hæfasta teymið. „Þetta snýst ekki bara um eitt kyn, heldur öll kyn.“