Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nýja gönguleiðin að gosinu að mestu tilbúin

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Innan við tuttugu björgunarsveitarmenn úr Þorbirni í Grindavík voru á vakt við gosstöðvarnar í Geldingadölum í nótt. Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar álítur að um 25 manns hafi verið á gossvæðinu. Það hafi nýtt sér nýju gönguleiðina.

„Það var ekki eins rosalega margt fólk og ekki eins vont veður, þannig að þá myndaðist ekki þetta ástand.“

Hvernig eru svo ráðstafanir fyrir daginn?

„Það þarf að fínpússa leiðina og halda áfram með vinnuna og hvernig það verður. Svo ræðst bara hvernig veður og annað er. Ég var búinn að heyra að það ætti að vera logn hérna seinni partinn. Við höfum áhyggjur af því.“

Er það vegna hættunnar af gasi?

„Já, það er þá bara kyrrt og safnast fyrir í dölum og annað. Það er eitthvað sem þarf að spá í ef vindur deyr út að fólk þarf að vera vel meðvitað um það.“

Bogi segir nýju gönguleiðina að gosstöðvunum nánast tilbúna. Í dag verði sendur hópur til að leggja lokahönd á að stika hana út en í gær var leiðin skráð þannig að hún er aðgengileg í GPS tækjum.

Að sögn Boga er verið að undirbúa að fólk geti lagt bílum sínum og verið að kanna leiðir við að setja upp færanlega stjórnstöð á svæðinu. Hann býst við að hópar björgunarsveitarmanna verði meðfram gönguleiðinni.

Eins þurfi að hafa í huga að tilfellum COVID-19 tilfellum virðist vera að fjölga en viðbúið sé að margir muni vilja skoða gosið um komandi helgi. 

„Það getur stoppað mest núna að COVID sé á uppleið. Það setur strik í reikninginn, við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við getum safnað saman fólki á gossvæðinu og tryggt tveggja metra fjarlægð.“