Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynjahallinn eykst í grænlenskum stjórnmálum

23.03.2021 - 03:32
Fáni Grænlands blaktir við hún
 Mynd: KNR-grænlenska ríkissjónvarpi - KNR
Færri konur bjóða sig fram til Grænlandsþings nú en 2018 og hlutfall þeirra lækkar á milli kosninga. Þing- og sveitarstjórnarkosningar verða haldnar á Grænlandi þriðjudaginn 6. apríl. Innan við þriðjungur frambjóðenda til grænlenska landsþingsins er konur og hlutfallið í sveitarstjórnarkosningunum er nánast það sama. Þetta kemur fram í frétt grænlenska blaðsins Sermitsiaq. 189 eru í framboði til Grænlandsþings; 56 konur og 133 karlar.

Frambjóðendur eru heldur færri nú en 2018, þegar 230 manns buðu sig fram. Þá voru 73 konur í framboði en 157 karlar. Þetta þýðir að hlutur kvenna hefur minnkað um 2,1 prósentustig milli kosninga, úr 31,7 prósentum frambjóðenda í 29,6 prósent. Í frétt Sermitsiaq segir að hlutföllin séu þau sömu í sveitarstjórnarkosningunum.

Kynjahallinn minnstur hjá Demókrötum en mestur í Naleraq

Karlar hafa löngum verið í yfirgnæfandi meirihluta frambjóðenda á Grænlandi líkt og víðast hvar annars staðar. Haft er eftir Söru Olsvig, formanni Mannréttindaráðs, að brýnt sé að fá fleiri konur í framboð, til að sporna gegn kynjamisrétti. Kynjahallinn er minnstur í Demókrataflokknum að þessu sinni, þar sem 10 af 22 frambjóðendum eru konur, eða 45,5 prósent.

Mestur er kynjahallinn í Naleraq-flokknum, þar sem einungis fjórar konur eru í 30 manna frambjóðendahópi, rétt rúm 13 prósent. Í hinum stóru flokkunum tveimur, Siumut og Inuit Ataqatigiit, eru hlutföllin heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir. 16 af 43 frambjóðendum Inuit Ataqatigiit eru konur, eða 37 prósent, sem er nokkuð yfir meðaltalinu. Í Siumut hallar töluvert meira á konur. Þar eru líka 16 konur í framboði - en karlarnir eru 44, og kynjahlutföllin því 26,7 prósent á móti 62,3 prósentum, körlum í vil. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV