Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gæti orðið fyrsta nýja dyngjan á Íslandi í 3.000 ár

Ef eldgosið við Fagradalsfjall heldur áfram á svipuðum nótum verður það að dyngju. Yngsta dyngjueldfjall á Íslandi er þrjú þúsund ára gamalt, en flest eru þau frá lokum ísaldar. Stærsta fjall sólkerfisins er sömuleiðis dyngja. Dyngjur eru breið, aflíðandi og keilulaga eldfjöll. Þau eru nokkuð auðþekkjanleg og líta út eins og skál á hvolfi með hringlaga gosopi.

Margt bendir til þess að ný dyngja sé að myndast

Dyngjur myndast á löngum tíma í þunnfljótandi flæðigosum þar sem kvikan streymir langar leiðir. Vísindamenn segja að stöðugt flæði þunnrar kviku af miklu dýpi, eins og í gosinu í Geldingadölum, sé sterk vísbending um að þar sé dyngja í mótun. Langflestar dyngjur á Íslandi mynduðust fyrir um það bil tíu þúsund árum. Eldvirknin getur staðið yfir í mörg ár, jafnvel áratugi. 

Íslenskar dyngjur eru á rekbeltum um allt land. Flestar eru ekki meira en þrír kílómetrar í þvermál og um 100 metra háar. Þekktustu dyngjurnar eru líklega Skjaldbreiður og Trölladyngja, en fleiri eru til dæmis títtnefndur Þráinsskjöldur á Reykjanesskaganum, fyrrverandi jökulinn Ok og Surtsey. 

Ólympusfjall er risastór dyngja

Næst stærsta dyngja landsins er Skjaldbreiður, rúmur kílómeter á hæð. Stærsta dyngja jarðarinnar er Mauna Kea á Hawaii eyjum Bandaríkjanna. Hún nær 4,2 kílómetra yfir sjávarmál. Svo má nefna til gamans að stærsta fjall sólkerfisins er einmitt dyngja. Ólympusfjallið á Mars er 27 kílómetra hátt og 550 kílómetrar í þvermál, sem gerir hana stærri en Ísland. Sigdældin er um 85 kílómetra löng. Fjallið er um tveggja milljóna ára gamalt og segja vísindamenn að það gæti því enn verið virkt.