Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrirtæki sýna ráðningarstyrkjum áhuga

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. - Mynd: RUV / RUV
Svo virðist sem talsverður áhugi sé meðal fyrirtækja á að nýta ráðningarstyrki til að ráða atvinnulaust fólk. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að fyrirtæki sýni ákveðna samfélagslega ábyrgð ef þau nýta ráðningarstyrki til að ráða fólk á atvinnuleysisskrá.

Nú þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum gefst fyrirtækjum og reyndar líka sveitarfélögum, opinberum stofnunum og félagasamtökum kostur á að nýta sér átakið Hefjum störf til að ráða nýtt starfsfólk. Opnað var fyrir umsóknir síðdegis í gær eða rétt fyrir lokun Vinnumálastofnunar og þá strax voru skráð 20 störf. Aðspurð segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar að fyrirtæki séu að kveikja á þessum möguleika.

„Ég get ekki betur séð en að fyrirtæki séu á kveikja á þessu enda er búið að kynna þetta nokkuð vel. Við höfum orðið vör við mikinn áhuga,“ segir Unnur. Hún segir að þetta sé hugsað til að glæða atvinnulífið og hjálpa öllum þessum atvinnuleitendum inn á vinnumarkaðinn aftur. „Það má segja að það sé ákveðin samfélagsleg ábyrgð sem fyrirtækin myndu sýna með því að ráða fólk í sumarafleysingar eða laus störf hjá okkur. Ráða fólk sem hefur verið að fá atvinnuleysistryggingar í stað þess að auglýsa störfin vegna þess að hér er gríðarlegur mannauður á ferð. Þetta eru 21 þúsund manns, allar tegundir og allar gerðir.“

Sjá: Hefjum störf

Með átakinu Hefjum störf er verið að víkka út svokallaða ráðningarstyrki sem hafa verið í boði árum saman. Breytingin felst í því að fyrirtæki fá um 472 þúsund krónur á mánuði auk 11,5 prósenta í lífeyrissjóð með hverjum starfsmanni. Skilyrði er að viðkomandi starfsmaður þarf að hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá - eða lengur en 12 mánuði. Stefnt er að því að ráða í allt að 7 þúsund störf undir þessum formerkjum. Almennur ráðningarstyrkur felur hins vegar í sér að starfsmaðurinn fær áfram greiddar atvinnuleysisbætur en fyrirtækið greiðir það sem upp á vantar til að uppfylla ákvæði kjarasamninga. Samtök atvinnulífsins hvetja aðildarfyrirtæki sín að nýta sér ráðningarstyrkina.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í Speglinum í síðustu viku að öll fyrirtæki gætu sótt um ráðningarstyrki.