Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dansandi trúðar og sirkusföt

Mynd: Menningin / RÚV

Dansandi trúðar og sirkusföt

23.03.2021 - 11:10

Höfundar

Ungmenni dönsuðu af lífi og sál og sýndu fatahönnun sína um helgina á árlegu Samféskeppnunum í hönnun og dansi.

Metþátttaka var í danskeppninni í ár, en 70 ungmenni úr öllum landshlutum voru skráð til leiks. Að sögn Söndru Ómarsdóttur, dómara, voru gleði og kraftur allsráðandi í atriðunum. „Það var rosalega orka frá nemendunum og maður fann hvernig þau tjáðu sig gegnum dansinn. Það er það sem mér finnst fallegast við dansinn, þessi orka,“ segir hún. Auk Söndru sátu í dómefnd dómnefnd Nancy Coumba Koné, Sandra Sano og Áslaug Einarsdóttir. 

Keppnin fór fram í Gamla bíó að þessu sinni. Keppendur voru á aldrinum 10-18 ára og keppt var í aldursskiptum einstaklings- og hópaflokkum. 

Trúðarnir í eldhúsinu

Sigurvegarar í hópakeppni 10-12 ára voru tvíeykið Circus clowns, en það skipa Ylfa Blöndal Egilsdóttir og Ísabella Waage Davíðsdóttir Castillo. Hugmyndin kviknaði í Covid, þó í öðru samhengi: „Okkur finnst við vera trúðar í alvörunni, persónuleikinn er þannig. Í Covid vorum við alltaf að kalla okkur trúða í eldhúsinu, þannig kom hugmyndin.“ 2. sæti vermdi hópurinn Survivors og í þriðja sæti voru Kleinurnar. 

Sigurvegari í einstaklingskeppni 10 til 12 ára var Vanessa Dalila Maria Rúnarsdóttir Blaga. Að hennar sögn er gleði stóra aðdráttarafl dansins. „Tónlistin og fólkið í kringum mig, það er svo skemmtilegt að dansa þegar maður er í kringum fólk sem manni finnst skemmtilegt. Og þegar maður er að hlusta á tónlist sem manni finnst skemmtileg,“ segir hún. 

Í 2. sæti í einstaklingskeppni 10-12 ára var Katla Líf Drífu-Louisdóttir Kotze og þriðja sætið hreppti Iðunn Hlynsdóttir. 

Sköpunargáfan frábær

Hönnunarkeppni unga fólksins, Stíll, fór fram í íþróttahúsinu Digranesi en þema keppninnar í ár var sirkus. Keppendur eru á aldrinum 13 til 16 ára. 

Hvergi skorti í hugmyndaauðgi hjá keppendum að mati dómara. „Það þurfti að gera þetta með ákveðnu sniði út af ástandinu en það tókst ótrúlega vel og Samfés gerði þetta geggjað. Keppendur fengu að njóta sín, þeir koma alls staðar að af landinu og það var númer 1,2 og 3. Þetta var æðislegt,“ segir Kristín Gunnarsdóttir sem sat í dómnefnd ásamt Andreu Bergmann Halldórsdóttur og Laufeyju Sif Ingólfsdóttur. „Þau leggja gífurlega mikið í þetta vel flest og mér finnst sérstaklega frábært að sjá þetta í ljósi þess að oft eru þetta valfög í grunnskólum sem hafa að mestu fallið niður í Covid. En það er geggjað að sjá að það hafi þetta margir komið. Sköpunargáfan og vinnubrögðin á bakvið þetta eru frábær,“ segir Andrea. 

Vinningsteymið kom að þessu sinni úr félagsmiðstöðinni Garðalundi í Garðabæ. Það skipuðu Ragnhildur Elva Kjartansdóttir, Stefanía Þóra Ólafsdóttir, Iðunn Björnsdóttir og Arna Sara Guðmundsdóttir.

Í 2. sæti var félagsmiðstöðin Kjarninn í Kópavogi. Þann hóp skipuðu Nanna Katrín Hrafnsdóttir, Guðrún Emilía F Guðlaugsdóttir, Lilja María Vilhjálmsdóttir og Naima Emilía Emilsdóttir

Þá hreppti brosnið félagsmiðstöðin Ásinn í Hafnarfirði, en þátttakendur í þeim hópi voru Kolbrún Sara, Ísabella Aníta og Elísabet Eva.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Garðalundur sigraði í Stíl

Menningarefni

Danskeppni SAMFÉS. Glæsilegt danskvöld í Gamla bíó.

Dans

Danskeppni Samfés í kvöld