Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

16 ára piltur sleginn í höfuðið með hamri á Akureyri

23.03.2021 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Sex ungir piltar voru handteknir eftir meiriháttar líkamsárás við verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri á sunnudagskvöld. Sextán ára piltur var sleginn í höfuðið með hamri í árásinni. Hinir handteknu voru vistaðir í fangelsinu á Akureyri. Málið tengist viðskiptum með merkjavöru.

Fæddir 2003-2005

Piltarnir sem voru handteknir eru allir fæddir á árunum 2003 til 2005 og voru yfirheyrðir að viðstöddum barnaverndarfulltrúa. Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Akureyri, segir að málið sé afar umfangsmikið og voru fjölmargir yfirheyrðir vegna málsins í gær.

„Málsatvik eru nokkuð ljós“

„Þetta eru mjög ungir piltar og við lítum þetta mál alvarlegum augum. Við leit fannst hamar sem var notaður við árásina. Rannsókn miðar vel og er langt á veg komin. Málsatvik eru nokkuð ljós. Við slepptum þeim eftir yfirheyrslur í gærkvöldi,“ segir Bergur í samtali við fréttastofu. Hann segir að fórnarlambið hafi leitað á slysadeild en sé á batavegi.

Málið tengt viðskiptum á merkjavöru

Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist málið sölu á dýru belti af gerðinni Gucci. Viðskiptin áttu að fara fram á bílastæðinu við Glerártorg en upp úr sauð áður en viðskiptin fóru fram. Auk líkamsárásar eru piltarnir sakaðir um rán og eignaspjöll.