Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Við þurftum að láta bjarga okkur“

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Fólk sem sneri aftur af gosstöðvunum síðla nætur og snemma morguns var orðið blautt, kalt og þreytt - og þurfti margt hvert á aðstoð björgunarsveita og sjálfboðaliða í fjöldahjálparstöð að halda.

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttur og Jens Lubke voru á heimleið þegar Sunna Valgerðardóttir fréttamaður rakst á þau. Þau voru þá komin aftur í bíl sinn, í þurrum fötum og með teppi sem þau fengu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins.

„Við þurftum að láta bjarga okkur. Við villtumst á leiðinni til baka frá eldgosinu,“ sagði Guðbjörg Kristín. „Við fórum af stað frá bílnum hálft tvö.“ Síðan voru liðnir tæpir fimmtán tímar.

„Við fórum tímanlega af stað, vorum mjög vel búin með fatnað og nesti. Við héldum að við værum góð. Svo villtumst við,“ sagði Guðbjörg Kristín. Hún sagði að þau hefðu gengið hægt og ef til vill hefði ferðin gengið betur ef þau hefðu farið hraðar yfir.

„Þau komu og sóttu okkur og fóru með okkur í fjöldahjálparstöð í Grindavík,“ sagði Guðbjörg Kristín um björgunarsveitarfólk. Hún sagði að þar hefði verið hugsað vel um þau og þau fengið það sem þau vanhagaði um: „Og þurr föt og heitt kakó, frábæra þjónustu.“

Þau sögðust hafa verið smeyk á tímabili. „Í lokin, þegar veðrið versnaði svo mikið,“ sagði Jens.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Torfi Ásgeirsson hlýjaði sér inni í bíl meðan á viðtali stóð.

Torfi Ásgeirsson var blautur og kaldur þegar hann kom til baka úr göngunni. Torfi settist inn í heitan bíl fréttastofunnar og ræddi við Sunnu Valgerðardóttur fréttamann meðan hann beið þess að fá heita súpu hjá björgunarsveitarmönnum.

 „Við fórum þarna upp að gosinu. Þetta var svolítið langt. Þetta eru tvisvar tíu kílómetrar, eða tólf jafnvel. Ég held að við höfum gengið 30 kílómetra í allt. Þetta var töluverð ganga. Svo fengum við slagveður á heimleiðinni, fór að rigna og töluvert hvasst. Það bætti nú ekki ástandið. Við áttum í erfiðleikum með að finna slóðann eða götuna í gegnum hraunið. Þetta var mjög úfið hraun og mosavaxið og erfitt að ganga það, sérstaklega í myrkri. Við vorum með takmarkað ljós, bara vasaljós og síma,“ sagði Torfi.