Þurfti að forða sér undan glóandi hrauninu

Mynd: Skjámynd / RÚV
Eldgos geta verið viðsjárverð. Því komst einn ferðalanganna í Geldingadölum að raun um í gær þegar hraunspýja skaust óvænt í átt að honum. Viðkomandi hafði gengið þétt upp að hrauninu til að virða það fyrir sér. Klukkan tvær mínútur yfir sex í gærkvöld braut rauðglóandi hraunið sér leið út um storknaðan hraunvegg í jaðri hraunsins. Á myndbandi sem fylgir fréttinni má sjá manneskju forða sér undan hraunspýjunni.

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadölum frá því á föstudagskvöld. Síðustu daga hefur fjöldi fólks verið á svæðinu sem í dag er lokað vegna gashættu auk þess sem vonskuveður gerir að verkum að ekkert útivistarveður er á þessum slóðum.

Um klukkan sex í gærkvöld var enn fjöldi fólks á staðnum. Margir voru í hlíðum dalsins en aðrir í dalbotninum sjálfum, alveg upp við hraunið. Það var þá sem eldgosið minnti á sig og sýndi að þótt svo ytra byrðið sé dökkt og fari kólnandi getur rauðglóandi hraun verið þar að baki.

Sem fyrr segir er ekkert ferðaveður fyrir útivistarfólk á þessum slóðum í dag. Veður lægir á morgun. Þótt það auðveldi ferðalög getur hætta á gasmengun aukist. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur sagði í hádegisfréttum RÚV að hún hefði miklar áhyggjur af gasmengun seinni part dags. Hún sagði að þegar lægir seinni partinn á morgun sé mikil hætta á að gas safnist saman í dalnum. Því ráðlagði hún fólki að halda sig á efstu toppum og fara hvorki niður í hlíðar dalsins né niður í botn hans. „Þú þarft ekkert að fara langt niður ef það er farið að safnast fyrir í hvilftinni. Þetta gas er stórhættulegt ef það safnast fyrir í miklum mæli.“