Sígarettan bjargaði lífi Marteins Þórssonar

Mynd: Menning / RÚV

Sígarettan bjargaði lífi Marteins Þórssonar

22.03.2021 - 12:53

Höfundar

Marteinn Þórsson leikstjóri náði botninum í þunglyndi þegar hann vann sem næturvörður á hóteli. Þar fór hann fram á brúnina og ætlaði að svipta sig lífi.

Marteinn Þórsson talar opinskátt um eigið þunglyndi í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1, þar sem hann lýsir alvarlegri geðlægð sem hann lenti í meðan hann vann á næturvöktum á hóteli á Hellu. „Maður þarf að pikka upp öðru hvoru svona gigg,“ segir Marteinn en hann hefur unnið við kvikmyndagerð í mörg ár.

Hann frumsýndi á dögunum kvikmyndina Þorpið í bakgarðinum, þar sem eitt umfjöllunarefna er kvíði og þunglyndi. Myndin er um nauðsyn manneskjunnar til að mynda tengsl, segir Marteinn. „Við erum félagsverur, við þurfum snertingu, við þurfum faðmlög, við þurfum að tala saman og við getum hjálpað hvert öðru. Það er ekki gott að einangra sig, við þurfum samskipti og geta talað um hlutina. Það var það sem mig langaði að gera, eftir alla þessa reynslu, að geta tekið eitthvað úr henni og miðlað áfram.“

Svarti hundurinn glefsar

Marteinn mælir ekki með því að fólk sem á við þunglyndi að stríða vinni á næturvöktum. „Ég fór alveg í botninn á mínu þunglyndi þar. Konan mín og fjölskyldan mín sáu það. Maður heldur að maður geti falið þetta, en þetta sést á manni. Það tala margir um þennan svarta hund og hann er alltaf að glefsa í mann. Maður reynir að halda andlitinu en það er ekkert um að villast.“

Hann er óvirkur alkóhólisti, á þessum tímapunkti hafði hann hvorki drukkið né reykt í um sex ár, en á einni næturvaktinni ákvað hann að stytta sér aldur við hótelið. „Ég var alveg kominn á brúnina. Ég ætlaði bara að gera þetta.“ Hann fór út í næstu sjoppu og keypti sér sígarettupakka. Á hótelinu var áfengi auðsótt á upplýstum bar. „Þetta var eins og í The Shining,“ segir hann og það er stutt í hláturinn þrátt fyrir alvarleika málsins. „Hvenær kemur draugur og serverar mig?“  

Skammt frá hótelinu rennur á, með stórum fossi. „Þannig að ég ætlaði að taka flösku þar og ganga niður að á, deyfa mig alveg og fara í fossinn. Svo kveiki ég á fyrstu sígarettunni í sex ár og þá gerðist eitthvað í hausnum á mér.“ Gamlar minningar leiftruðu hjá, honum snerist hugur og hann skildi við flöskuna óopnaða.

Nauðsynlegt að vera opinn og leita aðstoðar

Marteinn leitaði sér hjálpar eftir þetta. Þegar hann lýsti atvikinu fyrir geðlækni sagði hann að sígarettan hefði reynst bjargvættur. „Læknirinn sagði að við mættum nú ekki tala um þetta, en nikótín er náttúrulega örvandi efni. Það hefur kikkað inn og bjargað lífi mínu.“ Hann tók sér frí frá vinnu og vann í sjálfum sér og sínum málum. Lagðist inn á Reykjalund, fór á lyf, kom reglu á svefninn og tók mataræðið í gegn. Hann fór einnig í endurhæfingu hjá VIRK og á heilsuhælið í Hveragerði. Síðan hafa liðið fjögur ár og hefur hann ekki veikst aftur.

„Maður er var um þetta og konan bendir manni á ef maður er að fara í spíral,“ segir hann. „Maður finnur alveg fyrir því en ég er miklu meðvitaðri um þetta en maður var. Maður hefur lært á þetta og fengið verkfæri.“

Veikindin rötuðu í skáldsögu

Eiginkona Marteins er Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur, og rötuðu veikindi Marteins í skáldsögu hennar Skegg Raspútíns. „Hún skrifar þetta þegar ég er í þessu ástandi og er að fara niður. Ég man þegar hún lét mig fá uppkast að handritinu og bað mig um að lesa það. Þá var ég á vondum stað.“ Marteini brá í brún og var þvert um geð að þetta kæmi út. „Þetta var svo persónulegt. En sem betur fer hélt hún áfram. Ég fór í mína meðferð og sex mánuðum síðar, þegar ég las þetta, sagði ég: Þú verður að gefa þetta út. Kannski á þetta eftir að hjálpa einhverjum.“

Hann er því óhræddur við að tala um þunglyndið og sjálfsvígshugsanirnar sem leituðu á hann. „Maður þarf að vera opinn og leita sér aðstoðar. Það er rosalega mikilvægt. Þetta eru bara veikindi eins og önnur veikindi.“

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir? Ræddu málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins.

 

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fiskibollur og fortíðardraugar